Rannsókn er nú lokið á máli Kristjáns Gunnars Valdimarssonar, lögmanns og fyrrverandi lektors í skattarétti við Háskóla Íslands.

Þetta staðfestir Karl Steinar Valsson, yfirlögregluþjónn hjá miðlægri rannsóknardeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, í samtali við RÚV.

Málið sé nú hjá ákærusviði lögreglunnar þar sem ákvörðun verði tekin um ákæru.

Kristján var handtekinn á Þorláksmessu í fyrra og síðan sleppt en handtekinn aftur á jóladag grunaður um að hafa frelsissvipt þrjár konur og beitt þær kynferðislegu ofbeldi á heimili sínu.

Hann var í kjölfarið úrskurðaður í gæsluvarðhald. Þann 30. desember hafnaði Héraðsdómur Reykjavíkur kröfu lögreglunnar um áframhaldandi gæsluvarðhald yfir Kristjáni og var sá úrskurður staðfestur í Landsrétti. Hann hefur verið laus síðan.

Þann 30. desember hafði fjórða konan til­kynnt lög­reglu um meint kyn­ferðis­brot Kristjáns sem átti að hafa átt sér stað á heimili hans.