Skýrsla Rannsóknarnefndar samgönguslysa vegna banaslyssins á Kjalarnesi í lok júní í fyrra, þegar karl og kona létust í bifhjólaslysi, er langt komin.

En eins og fram kom í frétt Fréttablaðsins fyrir áramótin þá hafa fleiri en einn einstaklingur stöðu sakbornings vegna málsins.

Malbikið var gallað og flughált en rannsóknarnefndin skoðar fleiri þætti sem koma málinu við. Vegagerðin sem veghafi bauð verkið út og keypti þjónustu af verktakafyrirtækinu Loftorku sem framkvæmdi verkið. Loftorka keypti svo keypti efnið af malbikunarstöðinni Höfða. Eftirlitsþátturinn var líka boðinn út og var í höndum Hnits verkfræðistofu. Rannsaka hefur þurf hlut þessara aðila í málinu.

Rannsóknin er mjög langt komin, segir Sæv­ar Helgi Lárus­son, rann­sókn­ar­stjóri á um­ferðarsviði nefnd­ar­inn­ar en undirbúningur fyrir birtingu skýrslu tekur nokkrar vikur og verður hún birt í síðasta lagi í byrjun apríl.

Fram hefur komið að þessi þrír þjónustuþættir, verktaki, malbik og eftirlit hafi brugðist og í skýrslunni mun nánar verða rýnt í orsakir slyssins þótt ljóst sé að malbikið stóðst ekki kröfur.

Vegagerðin hélt í morgun opinn fund þar sem kynntar voru margvíslegar og stórauknar kröfur til verktaka, eftirlits og umsjónarmanna Vegagerðarinnar við lagningu malbiks og klæðinga. Tilefnið er banaslysið í fyrra.