Landsréttur hefur vísað máli Aðalsteins Kjartanssonar, blaðamanns á Stundinni, frá Héraðsdómi Norðurlands eystra.

Aðalsteinn er einn fjögurra blaðamanna sem boðaðir voru til yfirheyrslu með stöðu sakbornings af lögreglunni á Akureyri vegna máls Páls Steingrímssonar, skipstjóra Samherja. Í máli Páls liggur fyrir játning þriðja aðila um að hafa eitrað fyrir Páli ásamt því að taka síma hans og afhenda hann fjölmiðlafólki.

Í kjölfar boðunar til yfirheyrslu óskaði Aðalsteinn eftir því að dómstóll skæri úr um það hvort lögreglu hefði verið heimilt að kalla hann til yfirheyrslu sem sakborning í málinu og úrskurðaði héraðsdómur að henni hafi ekki verið heimilt að veita honum réttarstöðu grunaðs manns.

Hins vegar hefur Landsréttur nú snúið málinu við og vísað málinu frá héraðsdómi enda hafi ekkert komið fram um að lögregla hafi ekki gætt réttra formlegra aðferða þegar hún hóf rannsókn á málinu.

Má því segja að málið sé komið á upphafsreit á ný eins og ef héraðsdómur hefði aldrei tekið það til úrskurðar.

Játning þriðja aðila

Í úrskurði Landsréttar segir að háttsemin sem rannsóknin beinist að sé hvort Aðalsteinn hafi einn eða í félagi við aðra afritað síma í eigu Páls sem þriðji maður mun hafa játað að hafa tekið ófrjálsri hendi frá Páli.

Þá segir einnig að Aðalsteinn njóti ákveðinna réttinda sem blaðamaður samkvæmt stjórnarskránni hins vegar verði blaðamenn, að teknu tilliti til mikilvægis starfa þeirra og frjálsra fjölmiðla í lýðræðislegu samfélagi, að una því eins og aðrir borgarar að sakamál séu rannsökuð og rekin á hendur þeim fyrir ætluð hegningarlagabrot sem þeir kunna að hafa framið við störf sín.

Þó tekur Landsréttur fram í úrskurði sínum að lögreglu, ákæruvaldi og dómara á öllum stigum máls sé rétt og skylt að taka mið af rétti Aðalsteins og skyldum sem blaðamanns eftir því sem tilefni sé til.

Í úrskurði Landsréttar kemur fram að játning liggi fyrir um þjófnað á síma Páls en um þriðja aðila sé að ræða.

Páli byrlað og síminn tekinn

Í greinargerð lögreglunnar til héraðsdóms er vísað til yfirheyrslu þriðja aðila og þar segir að í skýrslutöku hafi viðkomandi játað að hafa eitrað fyrir Páli með svefnlyfjum en þegar þar hafi við komið í yfirheyrslunni hafi verjandi viðkomandi gripið inn í og truflað yfirheyrsluna með þeim hætti að viðkomandi tjáði sig ekki frekar.

Í kjölfar eitrunarinnar var Páll sendur á sjúkrahús í Reykjavík. Í greinargerð lögreglunnar segir að viðkomandi aðili hafi einnig gengist við því í skýrslutöku að hafa verið með síma Páls á meðan hann lá á sjúkrahúsi.

Hann segist hafa skoðað innihald símans án heimildar Páls ásamt því að afhenda fjölmiðlamönnum símann en vildi ekki gefa upp um hvaða fjölmiðlamönnum hann hafi afhent símann.

Þá kemur einnig fram í greinargerð lögreglunnar að hann hafi ekki afhent ákveðin gögn úr símanum heldur símann í heild sinni.

Lögreglan á Norðurlandi eystra hefur gefið frá sér yfirlýsingu vegna ákvörðun Landsréttar og segir að hún muni nú halda áfram með rannsókn málsins eins og henni beri að gera.

Stundin greinir frá því að úrskurður Landsréttar verði kærður til Hæstaréttar sem tekur afstöðu til þess hvort hann verði staðfestur eða hvort málið muni fá efnislega meðferð dómstóla.