Embætti ríkislögreglustjóra er í samstarfi við bæði erlendar löggæslustofnanir og einkafyrirtæki við rannsókn á sprengjuhótuninni sem barst Menntaskólanum við Hamrahlíð á aðfaranótt fimmtudags. Þetta staðfestir Runólfur Þórhallsson, yfirmaður greiningardeildar ríkislögreglustjóra.

Sprengjuhótunin sem um ræðir barst í gegnum tölvupóst og mætti lögregla á vettvang um leið og tilkynning barst frá rektor MH, Steini Jóhannssyni. Viðbragðsáætlun var sett í gang um leið og nemendum tilkynnt að kennslu hafi verið seinkað. Greint var frá því í kjölfarið að tölvupósturinn hafi verið á ensku og borist erlendis frá.

Ekki ástæða til að óttast frekari hótanir

Ekki hefur verið gefin út handtökuskipun á hendur manninum sem grunaður er um að hafa sent hótunina en Runólfur segir almenning ekki hafa ástæðu til að óttast frekari hótanir.

„Við teljum ekki mikla ástæðu til að vara almenning sérstaklega við. Við erum ekki að meta þetta þannig,“ segir Runólfur en samkvæmt honum voru hótanirnar bæði óljósar og handahófskenndar. Sérsveitin leitaði í húsnæðinu að mögulegum sprengjubúnaði en ekkert fannst.

Sambærilegar hótanir bárust þremur öðrum íslenskum stofnunum en lögreglan hefur ekki viljað gefa upp hvaða stofnanir þetta eru. Runólfur staðfesti þó að ekki væri um að ræða menntastofnanir.