„Það voru ekki margir sem sóttu þetta opna hús, en einhverjir þó," segir Gunnlaugur Bragi Björnsson upplýsingafulltrúi Rauða krossins, um áfallahjálp sem stóð íbúum Egilsstaða til boða í kjölfar þess að Lögreglan á Austurlandi skaut vopnaðan mann á Egilsstöðum eftir að maðurinn skaut í átt að lögreglu.

Lögreglunni barst tilkynning um mann sem væri vopnaður skotvopni í íbúðarhúsi og hefði uppi hótanir um að beita því. Eftir um klukkustundar umsátur kom maðurinn út úr húsinu og hóf þá skothríð, meðal annars að lögreglu sem skaut manninn í kviðinn. Var maðurinn í kjölfarið fluttur til Reykjavíkur með sjúkraþyrlu. Engir lögreglumenn særðust.

Starfsmenn héraðssaksóknara og tæknideildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu flugu til Egilsstaða í kjölfarið. Ólafur Þór Hauksson, héraðssaksóknari, segir að rannsókn málsins sé enn á frumstigi. „Það var flogið með tæknideild og rannsóknarlögreglu frá okkur og byrjað strax að vinna í þessu,“ segir Ólafur. „Tæknideildin fer strax í að rannsaka vettvanginn og vinnur allt tengt því,“ bætir hann við.

Maðurinn er á fimmtugsaldri og er líðan hans stöðug eftir að hann gekkst undir aðgerð. Gunnlaugur segir að áföll geti komið upp eftir á og það hafi ekkert endilega komið á óvart að fáir hafi nýtt sér áfallahjálpina sem í boði var. „Við minnum þess vegna á hjálparsímann og netspjallið fyrir þá sem vilja ræða málin eftir því sem frá líður, og okkar fólk verður áfram á tánum og tilbúið í það sem þarf,“ segir hann.

Nágrannar voru hvattir til a halda sig heima, enda hættan mikil.
Mynd/Gunnar Gunnarsson