Héraðssaksóknari hefur nú lokið rannsókn sinni á máli meintra hryðjuverkamanna. Frá því var fyrst greint á vef Vísis en í samtali við Fréttablaðið segir Ólafur Þór Hauksson, héraðssaksóknari, að rannsókn þeirra hafi lokið í síðustu viku.

Málið er nú hjá saksóknara sem mun taka afstöðu til þess hvort mennirnir verði ákærðir.

„Rannsóknargögnin voru tekin og látin í hendurnar á saksóknara sem nú fer yfir málið og tekur afstöðu til þess hvort gefin verður út ákæru eða ekki,“ segir Ólafur.

Þeir voru grunaðir um annars vegar skipulagningu hryðjuverka og hins vegar um brot á vopnalögum en á sama tíma og þeir voru handteknir lagði lögregla hald á mikið magn skotvopna.

„Það eru þessi tvö álitaefni sem voru til skoðunar í rannsókninni. Rannsakendur draga saman í lok rannsóknar það sem kemur fram en saksóknari tekur ákvörðun á grundvelli gagnanna sem hann fær og svo liggur fyrir ákvörðun.“

Mennirnir hafa verið í varðhaldi í um tæpar tíu vikur og voru í síðustu viku úrskurðaðir í áframhaldandi varðhald. Það rennur út a fimmtudag í næstu viku.

„Það er takmarkaður tími sem við getum haldið fólki í gæsluvarðhaldi. Saksóknari fær ekki lengri frest en tólf vikur. Ef hann ætlar að halda fólki í gæslu þá þarf að huga að því.“