Skattrannókn á Samherja er sögð snúast um upphæðir sem hlaupa á hundruðum milljóna króna.

Stundin greinir frá.

Rannsóknin hófst eftir umfjöllun um Samherjaskjölin svokölluðu í Kveik og Stundinni. Heimildir Stundarinnar segja að aflandsfélög á Marshall-eyjum og eynni Máritíus á Indlandshafi hafi orðið til þess að Samherji greiddi mun lægri skatta hér á landi en annars hefði verið.

Stundin segir rannsókn skattyfirvalda snúa að tveimur félögum, Mermaria Invest á Máritíus og Marshall eyjafélagið Cape Cod FS.

Hið fyrrnefnda félag hafi verið stofnað fyrir milligöngu Bernhards Bogasonar hæstaréttarlögmanns í desember 2014. Tilgangur félagsins hafi verið að koma peningum úr starfsemi Samherja í Namibíu til skúffufélaga Samherja á Kýpur án þess að greiða skatta.

Hið síðarnefnda félag hafi verið notað af Samherja til að greiða laun erlendra sjómanna af reikningum þess í norska bankanum DNB. Skatturinn telji að félagið hafi starfað og verið rekið í þágu Samherja til að spara því skattgreiðslur.

Samkvæmt Stundinni hefur Samherji staðfastlega neitað því að hafa átt Cape Cod en samkvæmt heimildum hafi rannsókn íslenskra skattyfirvalda leitt til þess að þau telji sig geta sýnt fram á yfirráð Samherja yfir félaginu.