Rannsókn lögreglunnar á brunanum við Bræðraborgarstíg í Reykjavík miðar vel og er langt komin, að sögn lögreglu.

Þrír létu lífið í brunanum og var karlmaður á sjötugsaldri handtekinn daginn sem eldurinn kom upp þann 25. júní síðastliðinn.

Hefur hann verið í haldi lögreglu frá þeim tíma en gæsluvarðhald yfir manninum á grundvelli almannahagsmuna rennur út 11. ágúst næstkomandi, en ekki 6. ágúst eins og áður hafði komið fram í tilkynningu frá lögreglu.

Fram kemur í tilkynningu að ákvörðun um kröfu um áframhaldandi gæsluvarðhald muni liggja fyrir í byrjun næstu viku.

Fréttablaðið greindi frá því í júlí að bruninn sé rannsakaður sem mann­dráp af á­setningi. Í gæslu­varð­halds­úr­skurði Héraðs­dóms Reykja­víkur er sak­borningurinn sagður liggja undir sterkum grun um að hafa brotið gegn 211. grein al­mennra hegningar­laga, sem snúi að mann­drápi af á­setningi.

Einnig er maðurinn grunaður um brot gegn vald­stjórninni, að hafa valdið elds­voða sem hafði í för með sér al­manna­hættu og hafa stofnað lífi annarra í hættu.
Í úr­skurðinum kemur fram að brotin sem um ræðir geti varðað allt að ævi­löngu fangelsi.

„Ó­for­svaran­legt þyki að kærði gangi laus þegar sterkur grunur leiki á að hann hafi framið svo al­var­leg brot,“ segir í úr­skurðinum.