Verkefnið kallast Hendur Íslands og verður að hluta til unnið með því að greina ljósmyndirnar hjá rannsóknastofu í líffræðilegri tölfræði, en svo fær Þjóðskjalasafnið að eiga gögnin án persónuupplýsinga þegar verkefninu lýkur.

„Ég byrjaði í fyrstu heimsókninni minni til Íslands fyrir mörgum árum síðan að snúa höndum fólks og lesa í þær,“ segir Jana, spurð um það hvernig og hvenær verkefnið hófst.

Markmiðið með verkefninu er að skoða hvernig hendur og lófar Íslendinga hafa þróast í gegnum breytta lifnaðarhætti á síðustu öld og allt aftur á 17. öld og hvort lesa megi karakter þjóðar út frá handabyggingu og lófalínum.

„Ég var hissa, því ég hafði aldrei áður hitt svo marga með næmar hendur og ég vildi fara um landið, líka í lítil þorp, til að komast að því hvort það sama gilti þar. Að þjóðin öll væri með afburðainnsæi, og þannig byrjaði þetta allt.“

Hægt er að fá lófalestur með, en það er ekki þátttökuskilyrði.

Annað foreldri íslenskt

En það eru einhver skilyrði fyrir þátttöku, er það ekki?

„Jú, annað líffræðilegt foreldri þeirra sem taka þátt verður að vera íslenskt,“ segir Jana, og að þátttakendur verði að hafa náð tíu ára aldri. Auk þess geta þátttakendur heldur ekki verið með gervineglur eða naglalakk.

Til að lesa hendurnar og rannsaka þær notar hún sömu tækni og er nýtt í andlitsauðkenningum [e. Face recognition] til að skoða hendurnar.

„Það er búið að aðlaga tæknina að höndum og ég vonast til þess að ná að mynda að minnsta kosti eitt prósent þjóðarinnar,“ segir Jana, og að líklega sé það ákveðið lágmark til að fá einhverjar raunverulegar niðurstöður.

Jana hefur verið með aðstöðu í Borgarbókasafninu í Grófinni og verður þar áfram frá 18. til 21. júní, 27. til 28. júní og svo síðustu þrjár vikurnar í júlí. Hún segir að hún hafi hitt mikið af athyglisverðu fólki þar.

„Það hefur verið svo ánægjulegt. Ég hef hitt svo mikið af skemmtilegu fólki,“ segir Jana, en til að geta tekið þátt þarf fólk að annað hvort senda skilaboð á netfangið handsoficeland@gmail.com eða að senda þeim skilaboð á Facebook-síðuna þeirra Hands of Iceland.

Vegna þess hve lesturinn og myndatakan tekur langan tíma, um 20 mínútur, þá er ekki hægt að mæta til þátttöku án þess að skrá sig.

Það er búið að aðlaga tæknina að höndum og ég vonast til þess að ná að mynda að minnsta kosti eitt prósent þjóðarinnar,

Konur verða að taka karl með

Jana tekur þó fram að vegna mikils áhuga kvenna þá hafi hún þurft að setja þau skilyrði fyrir þátttöku núna að ef að kona skráir sig til þátttöku þá þarf hún að taka með sér karlkyns eða kynsegin þátttakanda.

„Það hefur virkað svo vel og það er alls konar fólk að koma sem hefði kannski ekki tekið þátt. Konur eru að taka vini sína, tengdafeður og það er svo yndislegt,“ segir Jana.

Fyrr í mánuðinum skráði hún tvöþúsundustu höndina til þátttöku, en Jana segir að áður en hún geti fengið einhverjar upplýsingar í gegnum lestur á ljósmyndunum á rannsóknastofu í líffræðilegri tölfræði í gegnum rannsóknarstofuna, þurfi hún að vera komin með í það minnsta þrjú þúsund, eða um eitt prósent þjóðarinnar.

Á sjötta áratugnum var gerð svipuð rannsókn í mannfræðideild Háskóla Íslands, þar sem Jens Ólafur Páll Pálsson, prófessor emeritus við Háskóla Íslands, stofnandi og fyrsti forstöðumaður Mannfræðistofnunar Háskóla Íslands, rannsakaði um tíu þúsund hendur. Á þeim tíma má gera ráð fyrir að um þriðjungur þátttakenda hafi verið fæddur fyrir fyrri heimsstyrjöldina og því segir Jana að það sé vel hægt að bera saman við þau gögn sem hann safnaði og þannig sé hægt að sjá hvernig hendur hafa breyst á Íslandi og þróast. Hún hefur það að markmiði að ná að lesa í það minnsta aftur þrjú þúsund af þeim höndum sem tóku þátt í þeirri rannsókn.

„Þá get ég séð hversu margir hafa enn gömlu hendurnar, sem eru með breiðum fingurnöglum og þrek og hvort barnabörn þeirra hafi sömu hendur.“

Jana les í lófa ef fólk vill.
Fréttablaðið/Ernir

Íslendingar nærgætnir

Annað sem hún hefur tekið eftir er að 72 prósent þeirra sem hafa skráð sig til þátttöku hafa eins konar totu, sem er í laginu eins og regndropi, undir þumalputtanum, eða á efsta hluta fingursins.

„Þetta er eitthvað íslenskt. Ég hef ekki séð þetta annars staðar. Ég er ekki með svona,“ segir Jana og að þetta þýði að fólk sé næmt fyrir notkun viljans og að það gæti þýtt nærgætni fyrir því að fólk þarf sitt eigið pláss.

Spurð af hverju hún heldur að það sé, segir Jana að hún sjái að til dæmis er fólk hér mjög ólíkt Ítölum, þar sem fólk gengur upp að þér og talar við þig.

„En hér á Íslandi er það öðruvísi, hér segir fólk hæ og góðan daginn en það gerir ekkert meira. Því það veit ekki hvað þú ert að fara að gera. Þetta er virðing fyrir annarri manneskju og hennar mörkum,“ segir Jana.

Í gagnaöfluninni hefur hún einnig komist að því að hér virðist hátt hlutfall fólks vera með ráðandi vinstri hendi, sem lesið er út úr því hvaða þumalfingur verður ofan á þegar greipar eru spenntar, og auk þess hefur hún hitt marga sem eru jafnvígir á báðar hendur sem geta auk þess skrifað afturábak.

„Þetta er ótrúlegt og svo mikið ævintýri.“

Í litlum þorpum vilja yfirleitt flestir láta lesa í lófa sinn, en í borginni eru margir karlmenn ekki hrifnir af því

Ástríðuverkefni Jönu

Verkefnið er að miklu leyti ástríðuverkefni Jönu og því fjármagnað af henni sjálfri. Hún segir að fjöldi heimsókna út á land takmarkist því að miklu leyti af því hverjir bjóði henni og verkefninu í heimsókn til sín að vinna. Eins og staðan er þegar viðtalið er skrifað er á áætlun hennar að fara á Strandir, bæði á Hólmavík og Norðurfjörð, og svo á þrjá staði á Norðurlandi: Blönduós, Siglufjörð og Akureyri.

„Þetta er spennandi og við myndum elska að ferðast um landið í allt sumar að safna höndum í verkefnið, en þetta er ástríðuverkefni og ég hef ekki efni á því, því miður, að fara út um allt,“ segir Jana.

Þegar fólk tekur þátt í verkefninu býðst því líka að láta lesa í lófa sína. Jana segir þó mjög misjafnt hvort að fólk hafi áhuga á því, en hún hefur lesið í lófa í um 60 ár, allt frá því að hún var ung stúlka.

„Í litlum þorpum vilja yfirleitt flestir láta lesa í lófa sinn, en í borginni eru margir karlmenn ekki hrifnir af því. Þannig að ég segi það ekki lengur í upphafi. Það eru bara ljósmyndirnar sem við þurfum í rannsóknina, þannig að þeir þurfa ekki að láta lesa í lófann sinn til að taka þátt,“ segir Jana og hlær.

„En það er svo gaman að hitta nýtt fólk og lesa í það. Maður hittir auðvitað fólk á hverjum degi, en það sem maður veit ekki er hvaða þræðir voru notaðir til að vefa saman þessa manneskju og hvað mótaði hana og það er það sem ég sé í höndum hennar. Fingraförin eru eins og DNA-ið. Þau breytast aldrei. En hendur eru flóknar, eins og líkaminn. Það er misjafnt hvaða fingur eru lengstir og það sést yfirleitt á höndunum hvað fólk starfar við og hvort það hafi einhverja sjúkdóma. Hvort að fólk hafi átt erfiða æsku, það er hægt að sjá svo margt. Hendurnar geta breyst þó svo að fingurnir lengist ekki og umhverfið sem við ölumst upp við hefur mikil áhrif.“