Verkið ROF er hluti af Reykjavík Dance Festival sem nú fer fram, en Sveinbjörg er einmitt ein stofnenda hennar.

„Í rannsókn minni, Öll hreyfing hefur huga í tíma og rúmi, leitast ég eftir því að tengja innra ástand líkamans við hreyfingu dansarans,“ segir Sveinbjörg.

„Ég byrjaði að þróa rannsóknina fyrir um tveimur árum – áður en heimsfaraldurinn reið yfir og breytti heimsmynd okkar allra.“

Hún segir löngun sína til að hægja á, skynja og skoða nýjar leiðir í listsköpun þar sem samkennd, skynjun, hlustun og dýpt ræður ferð, hafa drifið sig áfram.

Verkið ROF er unnið upp úr tveggja ára rannsókn Sveinbjargar á hreyfingum dansara. Mynd/Saga Sig

„Ég hef verið að rannsaka líkama dansarans, tækni dansarans og þá viðamiklu óorðuðu þekkingu sem líkami dansarans býr yfir.

Auk dansmenntunar er ég menntaður jógakennari og nota hugleiðslu mikið til að tengja dansarann við undirmeðvitund sína, skynjanir sínar, tilfinningar og reynslu. Þaðan leggjum við af stað í að spinna hreyfingar sem síðar eru skoðaðar, ræddar og þróaðar áfram. Þannig hef ég þróað aðferðir mínar áfram í miklu trausti og samtali við dansarann.“

Í ROF ber Halla Þórðardóttir dansari verksins tvo „wave“ snjallhringa sem hún notar til að framkalla hljóð eða hafa áhrif á áferð tónlistarinnar með hreyfingu í rauntíma. Mynd/Saga Sig

Sveinbjörg segist hafa sérlegan áhuga á því hvaða sögu eða reynslu líkami dansarans býr yfir og hvernig hún kemur út í hreyfingu.

„Hvernig er hægt að hámarka virkni líkamans á sviði þannig það hreyfi við áhorfandanum? Öll vitneskjan sem kemur út úr spununum í ferlinu hefur svo bein áhrif á kóreógrafíuna, tónlistina og alla umgjörð verksins.“

Dans festival í tæp tuttugu ár


ROF er fyrsti afrakstur könnunarinnar en Sveinbjörg ætlar að þróa aðferðina áfram með fleiri dönsurum og skapa ný verk.

„Rannsóknin hefur verið í gangi í tæp tvö ár og hefur Halla Þórðardóttir dansari hitt mig reglulega í stúdíóinu til að prófa aðferðina og vera í virku samtali við mig.

Sjálft listræna ferlið fyrir ROF hófst svo í vor í formi undirbúnings, en hefur svo staðið yfir núna í sex vikur með listrænum stjórnendum verksins,“ segir Sveinbjörg, en ráðgerðar eru tvær sýningar, í kvöld og 9. desember en Sveinbjörg lofar að bæta fleirum við ef eftirspurn verði meiri.

Reykjavík Dance Festival var stofnað árið 2002 og er hátíðin því að verða 20 ára gömul, en Sveinbjörg var ein stofnenda hennar.

„Hátíðin hefur þróast mikið frá stofnun og er orðin ómissandi hluti af menningu borgarinnar. Þetta er alþjóðleg danshátíð og mikilvægur vettvangur fyrir danslistafólk landsins. Ekki bara til að sýna verk sín og sjá önnur, heldur líka til að hitta fólk í bransanum og mynda tengsl og setja sig sem listamenn í stærra samhengi.

Við erum þakklát fyrir það að getað haldið hátíðina í ár þrátt fyrir íþyngjandi sóttvarnareglur, en því miður verða engin partý í ár.


Allar upplýsingar um hátíðina og verk hátíðarinnar má finna hér: www.reykjavikdancefestival.is.