Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis ákvað á fundi sínum í dag að hefja frumkvæðisrannsókn á verklagi ráðherra í tengslum við peningaþvætti

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, formaður nefndarinnar og þingkona Pírata, segir að gert sé ráð fyrir því að athugun þeirra fari allt aftur til þess þegar Ísland hóf samstarf við FATF á tíunda áratugnum en að meiri áhersla verði á tímabilið frá því að FATF skilaði sinni fyrstu skýrslu um Ísland árið 2006.

„Fyrsta skýrslan frá FATF kemur 2006 þannig okkur þykir eðlilegt að byrja þar og fá gögn um á hvaða ábyrgðarsviði þessi málaflokkur var þá og hvort hann hafi farið á milli ráðuneyta og hvernig hafi verið staðið að því. Hvernig stjórnsýslan í kringum þetta hafi verið, hve þátttaka Íslands hafi verið, hvernig hún hafi verið framkvæmd og hvaða aðilar hafa verið að störfum við það að vinna úr þessum ábendingum sem hafa verið að koma,“ segir Þórhildur sunnan.

Hún segir að þetta verði byrjunarpunkturinn en að nefndin eigi svo eftir að ákveða hvernig framhaldið verði.

Hún áætlaði að skýrsla dómsmála- og efnahags- og fjármálaráðherra sem Bjarni Benediktsson tilkynnti um í gær á opnum fundi efnahags- og viðskiptanefndar myndi eflaust nýtast þeim í vinnu sinni, en sagði þó athugun nefndanna tveggja vera ólíka og hafa ólíkan tilgang. Hjá efnahags- og viðskiptanefnd snúist athugun þeirra miklu meira um hvernig Ísland geti komist af listanum, en hjá þeim snúist rannsóknin um það hvernig Ísland komst á listann.

„Það sem við erum að skoða hvernig má það vera að frá árinu 2006 höfum við fengið alvarlegar athugasemdir og það kemur fram í nýjustu skýrslunni frá 2018 að árið 2011 hafi farið að halla undir fæti hjá Íslandi,“ segir Þórhildur.

Þannig höfum við staðið okkur vel frá 2006 og allt til ársins 2011 og segist Þórhildur því, persónulega, velta því fyrir sér hvað hafi eiginlega gerst hér árið 2011.

Þórhildur segir að nefndinni sé mikilvægt að hafa heildarmyndina af því hvernig hafi verið staðið að þessum málefnum í íslenskri stjórnsýslu, skoða samskipti íslenskra stjórnvalda við FATF og viðbrögð stjórnvalda.

„Þetta er gert með það að markmiði að læra af þessu svo að þetta komi nú ekki fyrir okkur aftur,“ segir Þórhildur Sunna að lokum.