„Við tökum fyrir eitt stórt mál og rannsökum hvernig íslenskir fjölmiðlar hafa tæklað það, nú er það Samherjamálið,“ segir dr. Arnar Eggert Thoroddsen, aðjunkt við námsbraut í félagsfræði við Háskóla Íslands og umsjónarmaður grunnnáms í fjölmiðlafræði.

Hann kennir meðal annars námskeiðið Fjölmiðlarannsóknir: Álita- og ágreiningsmál, þar sem nemendur eru nú í óðaönn að skoða fjölmiðlaumfjöllun um Samherjamálið.Nemendur námskeiðsins skoða fréttir og umfjallanir sem birst hafa í dagblöðum, á netmiðlum og ljósvakamiðlum og beita kenningum sem þau hafa lært í námi sínu til að greina umfjöllunina sem málið hefur hlotið.

Mission: Impossible fílingur í þessu

„Ég skipti nemendunum upp í litla hópa, hver með sitt sérsvið og okkur líður dálítið eins og við séum í litlu rannsóknarfyrirtæki,“ segir Arnar og kímir. „Það er svona stemningin sem við reynum að ná upp, að setja smá Mission: Imposs­ible fíling í þetta. Ég geri þau út af örkinni og við gerumst fræðilegir rannsóknarblaðamenn. Við höfum ákveðið margar vikur til að leysa málið, byrjum með tvær hendur tómar en klárum þetta svo með bústnum skýrslum.“

Verkefnið er enn í fullum gangi svo ekki er komin lokaniðurstaða en Arnar segir ýmislegt áhugavert hafa komið fram. „Þetta er auðvitað risastórt mál en við sjáum að í upphafi var rosalega mikil umfjöllun, svona sprenging, og síðan minnkar hún eðlilega með tímanum.“

Nemendur hans skoða fjölmiðlaumfjöllun um Samherjamálið frá sem flestum sjónarhornum og beita fjölmiðlafræðikenningum líkt og þema- og innihaldsgreiningu. „Þau hafa til dæmis óneitanlega orðið vör við þá taktkík sem Samherji notar gegn fjölmiðlum,“ rifjar Arnar upp. „Einnig kom það þeim líka á óvart hversu lítill munur var á umfjöllunum skyldra miðla, eins og til dæmis á fréttastofum RÚV og Bylgjunnar.“

Alltaf sama línan - Samsæriskenningar og ásakanir

„Í þessum stóru hneykslismálum má í raun alltaf sjá sömu línuna, til dæmis að sá sem liggur undir ámæli fer oftast í samsæriskenningar og ásakanir,“ heldur hann áfram. „Sakborningar reyna eins og þeir geta að minnka skaðann með því að núa fjölmiðlum því um nasir að þeir hafi einhverjar annarlegar kenndir.“

Aðspurður um mikilvægi þess að nemendur fái að rannsaka raunveruleg mál í náminu segir Arnar það afar mikilvægt. „Það er nauðsynlegt að þau fari út á akurinn og beiti þessum hugtökum sem þau eru búin að vera að læra á raunveruleg dæmi og það er í rauninni tilgangurinn með þessu námskeiði,“ segir hann.

Í félagsfræðinni hefur Arnar verið þekktur fyrir skemmtilegar kennsluaðferðir. „Það er mikilvægt að örva fólk, nálgast nemendur af virðingu og á hæfilegum jafningjagrundvelli getum við sagt,“ segir hann. „Ef þau finna að kennarinn sjálfur er ástríðufullur og áhugasamur, ærlegt eintak sem gefur sig að nemendum, þá geta magnaðir hlutir gerst.“