Matvælastofnun (MAST) í samvinnu við Tilraunastöð Háskólans að Keldum hefur sett af stað rannsóknarverkefni til að reyna finna hvað valdi hósta í hundum sem MAST hefur fengið tilkynningar um.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá MAST.

Samkvæmt tilkynningunni hefur stofnuninni borist ábendingar um að á höfuðborgarsvæðinu hafi undanfarið verið óvanalega mikið um hóstandi hunda. Útlit sé fyrir öndunarfærasýkingu sem berist hratt og auðveldlega á milli hunda, sem eru á öllum aldri og ýmist bólusettir eða ekki.

Þá segir einnig að búið sé að taka sýni úr nokkrum hundum til að kanna hvort hóstinn tengist veirunni sem valdi Covid-19, en að það hafi ekki reynst vera.

Sumir hundanna hafa verið á hundahótelum eða vinsælum hundasvæðum, aðrir ekki, segir í tilkynningunni. Þá verði fæstir hundanna mikið veikir og nái sér á nokkrum dögum.

Í tilkynningu MAST segir að smitandi öndunarfærasýking sé þekkt hjá hundum og sé oft kallað hótelhósti.

„Hótelhósti er í raun lýsing á sjúkdómseinkennum í efri öndunarvegi, og margvísleg smitefni geta legið að baki, bæði veirur og bakteríur sem þá valda einkennum frá efri öndunarvegi svo sem hósta, og útferð úr nefi og augum, en í sumum tilfellum einnig slappleika og lystarleysi.

Einkennunum getur svipað til þess að aðskotahlutur, t.d. flís eða strá hafi fests í hálsi hundsins,“ segir jafnframt.

Þá séu öndunarfærasýkingar oft bráðsmitandi, smit geti borist með loftögnum við hósta eða hnerra. Ekki þurfi beina snertingu en smit geti einnig borist með munnvatni og útferð úr nefi og augum.

Þrátt fyrir að flestir hundar fari í gegnum veikindum á nokkrum dögum, án þess að verða alvarlega veikir, geta einstaka hundar orðið veikari.

„Getur hundurinn þá fengið einkenni lungnabólgu svo sem hækkaðan hita og erfiðleika við öndun. Hundum með einkenni, jafnvel þó lítil séu, ætti að forða frá mikilli áreynslu og hlaupum.“

Í tilkynningunni segir að til að minnka líkur á smiti í fríska hunda sé rétt að gæta smitvarna meðal annars með því að forðast nálægð við hunda með einkenni og forðast staði þar sem margir hundar komi saman.