Skotárásin sem átti sem stað í Miðvangi í Hafnarfirði í morgun verður rannsökuð sem tilraun til manndráps. Skotið var á að minnsta kosti tvær bifreiðar fyrir utan Miðvang 41 og var ökumaður í annarri þeirra þegar skotárásin átti sér stað.

RÚV greinir frá.

Samkvæmt frétt á vef Vísis var maðurinn, í annarri bifreiðinni sem skotið var á, með sex ára gamlan son sinn þegar skotin dundu á bifreiðinni, þeir feðgar hafi verið á leið í leikskólann þegar atvikið átti sér stað.

Samkvæmt frétt RÚV mun miðlæg rannsóknardeild lögreglunnar taka að sér rannsókn málsins.

Lögreglu barst tilkynning á áttunda tímanum í morgun um að skotið hefði verið á bifreið fyrir aftan verslun Nettó í Miðvangi.

Mikill viðbúnaður lögreglu og sérsveitarinnar var á svæðinu sem var allt afgirt en umsátur lögreglunnar stóð yfir í rúmar fjórar klukkustundir áður en maðurinn gaf sig sjálfviljugur fram um tuttugu mínútur yfir tólf í hádeginu í dag.

Maðurinn sem er á sjötugsaldri var handtekinn og færður á lögreglustöðina til yfirheyrslu.

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu þykir mikið mildi að ekki fór verr þegar maðurinn skaut á bifreiðina með ökumanni í.

Rannsókn málsins er á frumstigi og ekki hefur verið tekin ákvörðun um gæsluvarðhaldskröfu eða önnur úrræði.

Fréttin hefur verið uppfærð með viðbótar upplýsingum frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.