Gæða- og eftirlitsstofnun félagsþjónustu og barnaverndar mun kanna hvort og þá í hvaða mæli börn sem vistuð voru á meðferðarheimilinu Varpholti/Laugalandi á árunum 1997 til 2007 hafi sætt illri meðferð, andlegu eða líkamlegu ofbeldi meðan á dvöl þeirra á meðferðarheimilinu stóð.

Ríkisstjórnin samþykkti tillögu Ásmundar Einars Daðasonar, félags- og barnamálaráðherra, um að Gæða- og eftirlitsstofnun félagsþjónustu og barnaverndar yrði falin umsjá þess að kanna málið.

Saka forstöðumann um ofbeldi

Sex konur stigu fram í Stundinni og greindu frá andlegu og líkamlegu ofbeldi sem þær sögðust hafa orðið fyrir á meðferðarheimilinu. Sökuðu þær forstöðumanninn, Ingjald Arnþórsson, um að hafa beitt þær harðræði en hann hefur neitað öllum ásökunum.

Í samtali við Stundina sagðist Ingjaldur orðlaus yfir lýsingum kvennanna sem stigu fram og taldi mögulegt að ásakanirnar væru komnar frá bróður sínum, sem hafi ekki viljað að hann stýrði málum á meðferðarheimilunum.

Ráðherrann hefur í tvígang fundað með konum sem vistaðar voru á meðferðarheimilinu og ákvað í kjölfarið af þeim fundum að fela stofnuninni að fara í saumana á starfseminni.

Mun stofnunin taka viðtöl við alla hlutaðeigandi aðila, þ.e. þau sem voru vistuð á meðferðarheimilinu, rekstraraðila, starfsmenn heimilisins og ráðgjafa sem önnuðust málefni barnanna. Má þá gera ráð fyrir að stofnunin muni ræða við Ingjald um tíma hans sem forstöðumaður Laugalands.