Bandalag háskólamanna og Samtökin ’78 hafa gert samkomulag um rannsókn á hvort launamunur sé milli hinsegin fólks og annarra á íslenskum vinnumarkaði. Að sögn Friðriks Jónssonar, formanns BHM, verður rannsóknin ekki einskorðuð við háskólafólk, heldur verður litið vítt á vinnumarkaðinn.

„Okkur grunar að það sé mismunun í gangi. Ef rannsóknin leiðir það í ljós verður hægt að nota hana til þess að vinna gegn mismununinni,“ segir Friðrik. Heilt á litið vilji stjórnendur ekki mismuna fólki en mismunun geti einnig verið ómeðvituð. Sýni gögnin mismunun, í ákveðnum atvinnugreinum eða öllum, verði hægt að nýta þau til að bæta úr. „Við erum að berjast gegn ómálefnalegum launamun.“

Rannsóknin verður gerð í lok vors og snemma í sumar. Gerð verður viðhorfs- og reynslukönnun og ýmsar hagtölur og launaupplýsingar rýndar. Sérfræðingar frá Háskóla Íslands munu taka þátt í þessu.

Friðrik segir viðfangsefnið hins vegar flóknara en þegar launamunur kynjanna er reiknaður út, því innan kerfisins er hin hefðbundna skipting karla og kvenna í flestum tölum. Í rannsókninni verður þó hægt að komast að ýmsu, svo sem hvort glerþak sé hjá fyrirtækjum þegar kemur að samkynhneigðum og hvernig transfólki líður á vinnumarkaði. Heilt yfir sé rannsóknin gerð til þess að víkka jafnréttisumræðuna.