Þýskir miðlar greina frá því að hinn 43 ára gamli Christian Brückner, þýskur fangi sem lög­reglan í Þýska­landi grunar að hafi orðið hinni bresku Madelein­e Mc­Cann að bana árið 2007, hafi legið undir grun í tengslum við hvarf fimm ára þýskrar stelpu fyrir fimm árum.

Stelpan, sem heitir Inga, hvarf í Sax­land-Anhalt í maí árið 2015 og hefur ekkert spurst til hennar síðan þá. Tals­maður ríkis­sak­sóknara í Sten­dal sagði í sam­tali við Guar­dian að frum­rann­sókn hafi verið hafinn á því hvort mál Ingu og Madelein­e tengjast með ein­hverjum hætti.

Sendi óhugnaleg skilaboð árið 2013

Sam­kvæmt frétt Spi­egel fram­kvæmdi lög­regla leit í hús­bíl Brückner ná­lægt verk­smiðju sem var í niður­níslu árið 2016 og fannst þar meðal annars myndir sem sýndu börn í kyn­ferðis­legum til­gangi og stelpu­föt en Brückner á sjálfur engin börn. Brückner virtist þó ekkert vera rann­sakaður frekar.

Spi­egel greinir enn fremur frá því að Brückner hafi í sam­skiptum við vin í septem­ber árið 2013 sagt að honum langi að „fanga eitt­hvað lítið og nota það í fleiri daga.“ Eftir að vinurinn sagði það vera hættu­legt gaf Brückner það í skyn að hann hefði reynslu af því og sagði það vera lítið mál ef „sönnunar­gögnunum er eytt.“

Kölluð hin „þýska Maddi­e“

Að því er kemur fram í frétt Guar­dian um málið hefur lög­maður móður Ingu kallað eftir því að lög­regla hefji á ný rann­sókn á hvarfi Ingu en að sögn lög­mannsins var hætt við rann­sókn málsins eftir að­eins fjórar vikur. Lög­regla hefur ekki viljað stað­festa að Brückner hafi verið rann­sakaður í tengslum við hvarf Ingu.

Vegna þess hversu mikið mál hennar líkist máli Mc­Cann hefur Inga verið kölluð „þýska Maddi­e.“ Brückner hefur áður verið sak­felldur fyrir kyn­ferðis­brot gegn börnum en hann situr nú inni fyrir að hafa nauðgað 72 ára banda­rískri konu í Portúgal árið 2005.