Stjórn­skipunar- og eftir­lits­nefnd sam­þykkti í gær til­lögu þess efnis að gerð yrði frum­kvæðis­rann­sókn á hæfi Kristjáns Þórs Júlíus­sonar til að sinna starfi sjávar­út­vegs- og land­búnaðar­ráð­herra. Guð­mundur Andri Thors­son, þing­maður Sam­fylkingarinnar, var einn þriggja full­trúa sem studdu til­löguna, á­samt Þór­hildi Sunnu Ævars­dóttur, for­manni nefndarinnar og Andrési Inga Jóns­syni, ó­háðs þing­manns. Til að slík rann­sókn sé hafin þarf einungis stuðning þriggja full­trúa en ekki meiri­hlutans.

„Það er ekkert gaman að því að lýsa því yfir að maður vilji að hæfi manns til starfa sé rann­sakað en þess er þörf,“ segir Guð­mundur í sam­tali við Frétta­blaðið. Það sé hlut­verk nefndarinnar að taka málið til at­hugunar og í hans augum væri nefndin að bregðast hlut­verki sínu gengi hún ekki til slíkra verka.

Rauk á dyr og lýsti yfir vantrausti

Á­kveðinn þungi var í fólki á fundinum í gær að sögn Guð­mundar en and­stæða full­trúa ríkis­stjórnarinnar kom honum þó ekki á ó­vart. „Þeir vilja helst slá á­kveðinni skjald­borg um sinn mann,“ segir Guð­mundur og bætir við að hann hafi vissan skilning á þeirri af­stöðu sam­flokks­manna Kristjáns. „Aðrir stjórnar­liðar tóku síðan í sama streng eins og við var að búast.“

Það sem ekki var við búið að mati Guð­mundar var af­staða Þor­steins Sæ­munds­sonar, þing­manns Mið­flokksins. „Sú af­staða fannst mér at­hyglis­verð vegna þess að hann gekk lengra í and­stöðu sinni en hinir og var stór­yrtari og harðari í and­stöðu sinni.“

Það varð úr að Þor­steinn lýsti því yfir að for­maður nefndarinnar nyti ekki trausts hjá sér og því næst gekk hann út.

Þorsteinn Sæmundsson rauk á dyr þegar tillaga Þórhildar Sunnu, um frumkvæðisrannsókn á sjávarútvegsráðherra, var samþykkt.
Fréttablaðið/Anton Brink

Fagnaðar­efni fyrir Sjálf­stæðis­menn

„Ég myndi halda að það væri fagnaðar­efni fyrir Kristján og Sjálf­stæðis­menn að það sé farið út í slíka rann­sókn og það fengið á hreint hvort hann sé hæfur. Reynist það satt sem þeir halda fram þá er ekkert að óttast,“ segir Guð­mundur.

Hann undir­strikar að í rann­sókninni felist ekki dómur, enda sé nefndin ekki dóm­stóll. „Við erum ekki að fella dóm yfir honum heldur teljum við á­stæðu til að skoða hæfi hans sem ráð­herra betur vegna tengsla hans við fyrir­tæki sem hefur um 15 prósent hlut­deild í ís­lenskum sjávar­út­vegi.“

Tengslin fari ekki á milli mála

Tengslin milli sjávar­út­vegs­ráð­herra og Sam­herja blasi við að mati Guð­mundar enda hafi Kristján sjálfur talað um það árið 2017 að hann myndi segja sig frá öllu sem varði Sam­herja á sínu ráð­herra­tíma­bili. „Engu að síður þá hringir hann í for­stjóra Sam­herja þegar hann fréttir af yfir­vofandi þætti Kveiks,“ segir Guð­mundur.

„Þá er hann strax búin að brjóta gegn því sem hann hafði áður sagt að hann myndi gera.“

Guð­mundur nefnir að þetta sé eitt af þeim á­lita­málum sem þurfi að skoða betur. Einnig þurfi að fá það á hreint að hvort það standist yfir höfuð að hægt sé að segja sig frá öllu sem varðar svo stórt fyrir­tæki. „Það gefur auga­leið að allar á­kvarðanir sem teknar eru um ís­lenskan sjávar­út­veg í landinu varði svona risa­stórt fyrir­tæki eins og Sam­herja.“

Niður­staða liggur ekki fyrir

Ekki sé hægt að dæma fyrir fram hvaða niður­stöðu nefndin komist að en ljóst er að mati Guð­mundar þarf rann­sóknin að eiga sér stað. „Þá verður hægt að greina á um hvort maður með svo náin tengsl, líkt og hann hefur sjálfur lýst, sé van­hæfur til að fást við mál­efni greinarinnar eða ekki.“