Ákvörðun Fiskistofu um að fara ekki fram á að grjótgarður við hinn geysigjöfula laxveiðistað Hnausastreng í Vatnsdalsá verði fjarlægður hefur verið felld úr gildi.

Þetta er niðurstaða úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála sem barst kæra frá hluta landeigenda við Vatnsdalsá sem telja Veiðifélag Vatnsdalsár hafa lengt grjótgarðinn verulega umfram ákvæði leyfis sem gefið var út af Landbúnaðarstofnun 2007.

Það voru eigendur jarðanna Grímstungu, Hjarðartungu og Kvisthaga sem kærðu ákvörðun Fiskistofu um að hafast ekkert að vegna grjótgarðsins. Segja þeir grjótgarðinn hafa áhrif á dreifingu laxveiði í Vatnsdalsá til hins verra fyrir sínar jarðir. Fram kemur að hlutur Hnausastrengs í heildarveiðinni í ánni virðist hafa aukist úr 27 prósentum í 36 eftir tilkomu garðsins.

Fiskistofa sagði eðlilegra að horfa til veiði á öllum svæðum ofan Hnausastrengs samanlagt til að meta hugsanleg áhrif garðsins. Gögn styddu ekki að garðurinn tálmaði för laxa upp ána.

Veiðifélag Vatnsdalsár sagði garðinn hafa verið gerðan vegna mikils þrýstings frá leigutaka árinnar. Veiðimenn með langa reynslu af ánni hafi lagt mikla áherslu á að eitthvað yrði gert til að bæta Hnausastreng.

Fram kemur í umfjöllun úrskurðarnefndarinnar að Fiskistofa hafi kært málið til lögreglu sem hafi fellt það niður en ríkissaksóknari mælt fyrir um nýja rannsókn. Úrskurðarnefndin segir Fiskistofu ekki hafa lagt fullnægjandi mat á málið og sé ákvörðun stofnunarinnar um að aðhafast ekkert felld úr gildi.