Ekkert hefur spurst til 46 ára breskrar konu, Nicola Bull­ey, síðan á föstu­dags­morgun. Nicola skutlaði tveimur dætrum sínum í skólann í bænum St Michael‘s On Wyre skammt austur af borginni Black­pool og hugðist svo fara í göngu­ferð með heimilis­hundinn Will­ow.

Hún sást á göngu með fram ánni Wyre klukkan rúm­lega níu á föstu­dag en um klukku­stund síðar fannst Will­ow einn á gangi ekki langt frá. Eftir að til­kynnt var um hvarfið fannst sími Nicolu sem og beisli hundsins á bekk við ána.

Hvarf Nicolu þykir dular­fullt enda segja að­stand­endur hennar að hún hafi verið hamingju­söm og lifað fyrir börn sín. Móðir hennar, Dot, segir í sam­tali við breska blaðið Mirror að Nicola og systir hennar hafi ætlað saman í heilsu­lind daginn eftir hvarfið og verið búnar að skipu­leggja þá ferð.

Vitni sem var einnig á göngu með hund sinn þennan morgun segist hafa mætt Nicolu og Will­ow reglu­lega. Það gerði hann einnig á föstu­dag og segist hann ekki hafa tekið eftir neinu ó­venju­legu. Annað vitni, karl­maður á átt­ræðis­aldri, sá Nicolu einnig á gangi með hund sinn en það var hann sem tók eftir því nokkru síðar að Will­ow var einn á ferð á meðan Nicola var hvergi sjáan­leg.

Nicola tók þátt í fjar­fundi í vinnunni meðan hún gekk með Will­ow en í fréttum breskra fjöl­miðla kemur fram að hún hafi ekki verið í mynd heldur einungis hlustað. Margir hafi verið á fundinum og enginn tekið eftir ein­hverju ó­venju­legu. Þegar síminn hennar fannst var hún enn skráð inn á fundinn.

Leitarflokkar hafa leitað í ánni síðustu daga og verður leit haldið áfram þar til annað verður ákveðið.