Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur nú til rannsóknar andlát barns sem lést í gæsluíbúð á vegum Barnaverndar Reykjavíkur fyrir um tveimur mánuðum síðan.

Margeir Sveinsson, aðstoðaryfirlögregluþjóns hjá Miðlægri rannsóknardeild Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, staðfestir í samtali við Fréttablaðið að málið sé nú í rannsókn lögreglunnar. Rannsókn hafi staðið yfir í tæpa tvo mánuði en verið er að bíða eftir ýmsum niðurstöðum. Hann vildi ekki tjá sig frekar um málið en sagði að ekkert benti til þess að andlátið hafi borið að með saknæmum hætti.

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu sendi frá sér tilkynningu vegna málsins í dag en fyrst var greint frá málinu á vef Mannlífs í gær. Þar segir að dauðsfallið hafi orðið á vistheimilinu Mánaberg í Reykjavík. Á heimilinu fer fram meðferð í foreldrahæfni. Ekki kemur fram hversu gamalt barnið var.

Fréttin hefur verið uppfærð 27.11.2020 klukkan 13:44.