Framkvæmdastjóri Strætó, Jóhannes Svavar Rúnarsson, segir í samtali við Fréttablaðið að það sé ekki rétt að Strætó sé einungis tryggður fyrir einum farþega í hjólastól um borð í hverjum strætisvagni. Umræða myndaðist á Twitter um málið eftir að Twitter færsla frá Arnóri Steini vakti athygli.

„Í dag lærði ég að strætó er bara tryggður fyrir einum hjólastól í einu, sem þýðir að ef það eru tveir slíkir um borð í vagni sem lendir í slysi, á er ábyrgðin á bílstjóranum? Smá skrýtið að fara ekki með tvo einstaklinga í hjólastól,“ segir Arnór í Twitter færslunni.

„Við erum bara með hefðbundnar tryggingar eins og allir aðrir, ábyrgðartryggingu og svoleiðis“ segir Jóhannes. Hann segir vera pláss fyrir fleiri en einn farþega í hjólastól um borð í hverjum vagni en það sé þó oftast svoleiðis að það sé bara festing fyrir einn, það sé þó ekkert til fyrirstöðu að annar farþegi í hjólastóll fari um borð í vagnana. „Það er alveg hægt að koma öðrum fyrir en hann er þá ekki festur,“ segir Jóhannes.

Hann segir það sama gilda um barnavagna, engin fjöldatakmörk séu á þeim í hverjum vagni, svo lengi sem fjöldi farþega fer ekki yfir hámarksfjölda leyfilegra farþega í hverjum og einum vagni.

Erla Tryggvadóttir, samskiptastjóri hjá tryggingafélaginu VÍS, sem er tryggingafélag Strætó, staðfestir þetta í samtali við Fréttablaðið. „Við myndum aldrei setja það fyrir okkur hvort það væri fleiri en einn farþegi í hjólastól um borð,“ segir Erla.

„Ég veit að það er oft bara ein festing fyrir hjólastól og kannski sprettur umræðan upp úr því,“ segir Erla.

Færsluna á Twitter má sjá hér að neðan: