Range Rover frumsýndi í vikunni nýtt útlit Range Rover Sport með sérstöku kynningarmyndbandi á netinu. Þar sést ökuþórinn Jessica Hawkins aka upp Hafrahvammagljúfur skömmu áður en Hálslón fer á yfirfall og fyllir gljúfrið. Var Ísland efst á lista hjá Land Rover fyrir kynningarmyndbandið, en fyrri módel hafa til dæmis ekið 999 þrepin upp himnastigann á Tianmen fjalli í Kína. Ekki er að sjá að bíllinn sé mikið breyttur frekar en stóri bróðir hans, en samt er um alveg nýjan bíl að ræða. Hjólhafið er 75 mm lengra en lengra fráfallshorn að aftan setur sportlegri svip á hann.

Efri hluti bílsins er eins og einn gluggi, þaklínan aðeins afturhallandi og endar í stórri vindskeið. Hurðarhandföng falla inn í hurðirnar og díóðuljósin eru enn mjórri en áður. Stærstu felgurnar sem hægt er að fá með bílnum eru 23 tommur. Bíllinn er á sama MLA Flex undirvagni og Range Rover og einnig verður kynnt rafútgáfa sem kemur þó ekki fyrr en 2024. Tvær tengiltvinnútgáfur verða í boði strax með allt að 503 hestafla og 700 Nm vélbúnaði, en þriggja lítra vélin með 38,2 kWst rafhlöðu getur komið bílnum í hundraðið á aðeins 5,4 sekúndum. Mildari tvinnútgáfur og öflugri V8 útgáfa verða einnig í boði og SVR útgáfa mun koma fjótlega.