Rampur númer 200 í verkefninu Römpum upp Ísland var tekinn formlega í notkun í Hamraborg í Kópavogi í dag.
Undanfarnar vikur hefur verið unnið að því að rampa upp Hamraborgina en lögð er áhersla á það í verkefninu að setja rampa við staði þar sem mannlíf er mikið og bæta aðgengi hreyfihamlaðra að þjónustu, verslun og veitingahúsum.
„Vígslan fór fram við húsnæði Reynis bakara í Hamraborg og tóku þeir bræður Henry og Þorleifur Reynissynir á móti gestum,“ segir í tilkynningu frá Kópavogsbæ.
Þar kemur fram að Valdimar F. Valdimarsson hafi tekið að sér formlega opnun á rampinum, en Valdimar, sem vinnur í grennd við Hamraborgina, á bæjarskrifstofum Kópavogs, fer ferða sinna í hjólastól og nýtur góðs af bættu aðgengi í götunni, rétt eins og aðrir hreyfihamlaðir.
Þúsund rampar verða settir upp á næstu fjórum árum á landinu öllu í verkefninu Römpum upp Ísland sem hefur þann tilgang að greiða aðgengi hreyfihamlaðra að þjónustu, afþreyingu og þátttöku og stuðlar þannig að auknu jafnrétti allra.
Stofnaður var sjóður með aðkomu fyrirtækja og aðila sem stendur straum af kostnaði fyrir verslunar- og veitingahúsaeigendur.
Fram kemur í tilkynningunni að ramparnir séu settir upp í góðu samstarfi eigenda bygginga og skipulagsyfirvalda í hverju sveitarfélagi. Haraldur Þorleifsson stjórnandi hjá Twitter og stofnandi hönnunarfyrirtækisins Ueno, er hvatamaður verkefnisins.