Stefnt er á að bæta við 100 nýjum römpum í mið­borg Reykja­víkur á þessu ári til að bæta að­gengi hreyfi­hamlaðra. Ríkis­stjórnin sam­þykkti í dag að veita þriggja milljóna króna styrk af ráð­stöfunar­fé sínu til að styðja við stofnun Að­gengis­sjóðs Reykja­víkur. Greint er frá í tilkynningu.

Byrjað verður í mið­borg Reykja­víkur þar sem elstu húsin eru og að­gengið verst. Ráð­gert er að sjóðurinn veiti styrki fyrir allt að 80 prósent af kostnaði við gerð rampa eða upp­hækkana að verslunum og veitinga­stöðum.

„Með römpunum verður öllum gert kleift að sækja veitinga­staði og verslanir þátt­tak­enda í Reykja­vík. Unnið verður í góðu sam­starfi við eig­endur við­komandi bygginga og skipu­lags­yfir­völd en borgin er stofn­aðili að verk­efninu og mun tryggja góðan fram­gang þess,“ segir í til­kynningu.

Sjóðnum er ætlað að auka að­gengi hreyfi­hamlaðra að þjónustu, verslunum og veitinga­húsum í Reykja­vík en fé­lags­mála­ráðu­neytið mun einnig styrkja verk­efnið um tvær milljónir króna.

Fyrsta mark­mið sjóðsins er að gera 100 rampa á einu ári en verk­efninu „Römpum upp Reykja­vík“ var ýtt úr vör í Iðnó í dag, á degi að­gengis fyrir alla. Þar tóku til máls Katrín Jakobs­dóttir for­sætis­ráð­herra, Guðni Th. Jóhannes­son, for­seti Ís­lands, Dagur B. Eggerts­son borgar­stjóri og Haraldur Þor­leifs­son, stofnandi Ueno og hvata­maður að stofnun sjóðsins.

Fremstur á myndinni er Haraldur Þor­leifs­son, stofnandi Ueno og hvata­maður að stofnun sjóðsins. Á myndinni má einnig sjá forsætisráðherra taka til máls og forsetann og borgarstjóra í bakgrunni.
Fréttablaðið/Valli