Evrópa hefur ekki byggt upp inn­viði sem skyldi til að tækla orku­krísuna í kjöl­far Úkraínu­stríðsins. Þetta segir Halla Hrund Loga­dóttir orku­mála­stjóri.

„Þess vegna er Þýska­land að auka raf­orku frá kolum um 30 prósent milli ára. Sem dæmi hafa ekki verið byggðar upp stöðvar í Þýska­landi til að taka á móti fljótandi gasi frá öðrum ríkjum en Rúss­landi.“

Ef Kín­verjar á­kveða að kaupa stór­fellt magn af Rússum í gegnum risa­vaxna gas­leiðslu milli landanna gæti það þýtt að Evrópa þurfi að hugsa öll sín orku­mál upp á nýtt. Inn­viða­krísa er annað nafn yfir orku­kreppuna að sögn Höllu Hrundar.

„Á­tökin í Úkraínu endur­spegla ó­sjálf­stæði Evrópu í orku­málum,“ segir Halla, einkum er kemur að lofts­lags­mark­miðum. Evrópa hafi veðjað á ó­dýrt gas frá Rúss­landi í þeim efnum. Nú kvikni spurningar um hvort Þýska­landi sé stætt á að loka síðustu kjarn­orku­verunum eins og stefnt hefur verið að.

„Kjarn­orka hefur átt mikinn þátt í að ekki hefur farið enn verr á þessum krísu­tímum. Það verður á­huga­vert að sjá hvaða svör Evrópa hefur í inn­viða­upp­byggingunni þegar og ef sam­skiptin við Rúss­land halda á­fram að versna.“

„Kjarn­orka hefur átt mikinn þátt í að ekki hefur farið enn verr á þessum krísu­­tímum,“ segir Halla.

Orku­verð hefur hækkað marg­falt í sumum ríkjum frá upp­hafi inn­rásarinnar. Verð­þaki hefur verið komið á til dæmis í Bret­landi. Heimili þar munu ekki greiða nema 2.500 pund á ári sem þó gæti að­eins orðið brot af því sem orkan mun kosta.

Mikil um­ræða er um að Evrópu­sam­bandið hafi brugðist og að endur­skoða þurfi lög­gjöf um orku­markað. Endur­hanna þurfi reglu­verk um orku­markaðinn til að hann þjóni al­menningi betur, líka á krísu­tímum.

„Hér heima finnum við mun minna fyrir þessu á­standi saman­borið við löndin á megin­landi Evrópu, vegna þess hve langt við höfum náð nú þegar í orku­skiptum. En það má gera ráð fyrir aukinni eftir­spurn eftir orku hér heima vegna þessa á­stands,“ segir Halla Hrund.

Mikil um­ræða er um að Evrópu­sam­bandið hafi brugðist og að endur­skoða þurfi lög­gjöf um orku­markað.
Fréttablaðið/AFP

Orku­mála­stjóri minnir einnig á að tæki­færi geti falist í krísum. Krefjandi að­stæður hafi leitt til lagningar hita­veitu í flestar byggðir hér á landi og gríðar­legrar upp­byggingar ís­lensks orku­iðnaðar.

„Við sjáum það nú hve gott er að vera sjálf­stæð í orku­málum. Á sama tíma er mikil­vægt að við setjum í for­gang að klára orku­skiptin. Mikið er eftir í flugi og í siglingum en ekki eftir neinu að bíða að klára orku­skiptin í landi. Orku­öryggi og lofts­lags­mál eru efst á baugi,“ segir Halla Hrund.