Frumvarp um breytingu á áfengislögum er enn á þingmálaskrá dómsmálaráðherra en mörg stjórnarmál hafa verið skorin niður vegna kórónafaraldursins. Í endurskoðaðri þingmálaskrá sem send var þinginu fyrr í vikunni kemur fram að áfengisfrumvarpið sé tilbúið til framlagningar í ríkisstjórn. Í frumvarpinu er mælt fyrir um rýmri heimildir til netverslunar og sölu áfengis á framleiðslustað.

Rammaáætlun hefur hins vegar verið felld úr þingmálaskránni og verður því ekki lögð fram fyrr en í fyrsta lagi í haust. Frumvörp umhverfisráðherra um þjóðgarðastofnun og hálendisþjóðgarð hafa hlotið sömu örlög.

Meðal annarra mála sem felld hafa verið niður í þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar eru frumvörp dómsmálaráðherra um breytingar á mannanafnalögum og hagsmunaskráningu dómara, frumvarp forsætisráðherra um nýtingu orkuauðlinda á opinberu yfirráðasvæði, frumvarp sjávarútvegsráðherra um aukið eftirlit Fiskistofu, mál félags- og barnamálaráðherra um endurskoðun á hlutverki Barnaverndarstofu í barnaverndarlögum, frumvarp fjármálaráðherra um breytingar á lögum um erfðafjárskatt og fyrirhuguð endurskoðun utanríkisráðherra á fyrirkomulagi og framkvæmd alþjóðlegrar þróunarsamvinnu.

Meðal þingmála sem lifðu niðurskurðinn af eru mál sem tengjast Lífskjarasamningnum og loftslagsmálum auk mála sem tengjast samningi við Bandaríkin um skil á varnarsvæðinu á Keflavíkurflugvelli og breytingar á mörkum núverandi öryggissvæðis. Mál tengd fiskveiðistjórn, annars vegar um grásleppuveiðar og hins vegar um byggðaráðstafanir, eru einnig inni á þingmálaskránni.

Framlagningu fjármálaáætlunar, sem leggja á fram fyrir 1. apríl hvert ár samkvæmt lögum um opinber fjármál, var frestað en hún verður lögð fram fyrir lok vorþings.

Meðal mála sem tengjast Lífskjarasamningnum er frumvarp fjármálaráðherra um takmarkanir á notkun verðtryggingar í lánssamningum til neytenda. Samkvæmt þingmálaskránni var málið lagt fram í ríkisstjórn í október. Heimildir Fréttablaðsins herma að málið sitji fast í þingflokki eins stjórnarflokkanna.

Í þingmálaskránni eru nokkur ný mál sem tengjast faraldrinum og ráðstöfunum ríkisstjórnarinnar vegna hans. Þeirra á meðal eru frumvörp sem tengjast átaki í fráveitumálum og skilvirkari framkvæmd laga um atvinnuleysistryggingar. Fjármálaráðherra boðar einnig frumvarp um heimild til að stofna opinbert hlutafélag um uppbyggingu samgönguinnviða á höfuðborgarsvæðinu. Stefnt er að framlagningu þess frumvarps síðar í þessum mánuði.

Að sögn Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra er ekki ólíklegt að þingið starfi lengur fram á sumar en starfsáætlun Alþingis gerði ráð fyrir, en henni var kippt úr sambandi skömmu eftir að ljóst varð hve mikil áhrif faraldurinn myndi hafa hér á landi. Hún mun funda með formönnum flokkanna á þriðjudag eftir páska um verkefnin og starfið til vors.

Mál sem ráðherrar hyggjast leggja fram:
Breytingar á áfengislögum

Mál tengd lífskjarasamningum
Viðskiptakerfi með losunarheimildir.
Stjórn veiða á grásleppu
Byggðaráðstafanir í stjórn fiskveiða
Mál tengd varnarsvæðinu á Keflavíkurflugvelli
Opinbert hlutafélag um samgönguinnviði á höfuðborgarsvæðinu.


Dæmi um mál falla niður:
Breytingar á mannanafnalögum
Rammaáætlun
Hálendisþjóðgarður
Þjóðgarðsstofnun
Endurskoðun barnaverndarlaga
Alþjóðleg þróunarsamvinna