Jens Olav Flekke, formaður verndarsjóðs villtra laxa í Noregi, segir að Íslendingar ættu að taka á móti fiskeldi með því skilyrði að það fari fram í lokuðum kerfum. Jens segist ekki vera á móti fiskeldi heldur aðeins því sem fram fer í opnum sjókvíum.       

„Sem dæmi um hve vel hefur tekist til með lokuð kerfi þá hefur fyrirtæki í Noregi, Akvafuture, ræktað lax í lokuðum sjókvíum síðan árið 2012 án þess að þurfa að eiga við sjúkdóma eða laxalús. Íslendingar ættu einungis að notast við lokuð kerfi því það er sjálfbært kerfi og þeir gætu þannig 
fengið meiri gæði og hærra verð og selt til veitingastaða,“ segir Jens Olav í samtali við Fréttablaðið.

Laxeldi í sjókvíum og áhrif þess hefur verið nokkuð til umfjöllunar, eftir að heimildamyndin Undir yfirborðinu eftir Þorstein J. Vilhjálmsson, var sýnd á RÚV á mánudag. Þar er meðal annars haldið fram að eitrið sem notað er við laxalús skemmi afla sem veiddur er í nágrenni kvíanna og að úrgangur úr laxakvíum mengi sjávarbotninn undir kvíunum. Jens segir að lokuð sjókví leysi þennan vanda.

„Mörg vandamál á borð við laxalús, saurmengun og laxasleppingar fylgja opnum sjókvíum. Laxalúsin er stórt vandamál og sérstaklega þegar hún leggst á villt laxaseiði sem koma til sjávar. Lúsin sem lifir í fjörðunum í miklu magni vegna fiskeldisins hreinlega drepur seiðin,“ segir Jens. 

„Í Noregi falla til um 550 þúsund tonn af saur á sjávarbotninn árlega og margra metra þykkt lag myndast víða sem gerir þaðað verkum að ekkert vex á botninum og hann verður að eyðimörk,“ bætir hann við. 

Jens Olav segir kosti lokaðra kvía vera augljósa. Þar sé hægt að stjórna hitastiginu fullkomlega sem komi í veg fyrir laxadauða og hraði framleiðsluferlinu. Í lokuðum sjókvíum sé framleiðslutíminn sex mánuðum styttri en í opnum kvíum því laxinn vaxi hraðar út af hitastiginu. Þá borði laxinn minna í kaldari sjó.