Á morgun verður smitrakningarapp em­bættis land­læknis og al­manna­varna­deildar Ríkis­lög­reglu­stjóra (Rakning C-19) upp­fært og mun þá nýta Bluet­ooth-tækni við rakningu smita.

Sam­kvæmt til­kynningu frá Land­læknis­em­bættinu verður hægt að sækja upp­færsluna á morgun, þriðju­daginn 11. maí.

Þessi nýja út­gáfa appsins mun gera smitrakningar­teyminu kleift að rekja hugsan­leg smit þar sem tengsl milli aðila eru ekki þekkt og því erfiðara að rekja.

Í til­kynningu segir að enginn af­sláttur verði gefinn á vernd per­sónu­upp­lýsinga og öryggi for­ritsins. Öll gögn verða vistuð á sím­tækinu sjálfu og að­eins geymd þar í 14 daga.

Ný útgáfa af Rakning C-19 notar Bluetooth-tækni sem hönnuð er til að skipast á ópersónugreinanlegum upplýsingum milli tækja. Engum persónuupplýsingum er deilt með appinu, hvorki til fyrirtækjanna né annarra notenda.

Hvernig virkar appið?

Rakning C-19 notar Bluet­ooth-merki sím­tækja til að reikna út fjar­lægð milli tækja. Símarnir skiptast á ó­per­sónu­greinan­legum upp­lýsingum, eða svo­kölluðum lyklum, auk þess sem appið sækir reglu­lega upp­lýsingar um lykla sem hafa verið sendir frá öðrum tækjum. Þegar ein­stak­lingur sýkist af CO­VID-19 og er með appið biður rakningar­teymi al­manna­varna­deildar við­komandi að senda lykla úr appinu. Ef sími sækir upp­lýsingar um lykil sem hann hefur séð áður fara út­reikningar af stað sem meta líkur á út­setningu.

Ef símarnir hafa verið í minna en 2 metra fjar­lægð í 15 mínútur kemur upp til­kynning um hugsan­lega út­setningu. Þegar ein­stak­lingur fær slíka til­kynningu getur við­komandi fylgt leið­beiningum í appinu um skráningu í smit­gát og jafn­framt fengið boð í sýna­töku.

Skráning í smit­gát er á­kvörðun hvers og eins notanda. Til­gangurinn er fyrst og fremst að gera hverjum og einum kleift að grípa til ráð­stafana, tak­marka sam­neyti við aðra, huga enn betur að ein­stak­lings­bundnum sótt­vörnum og fá sjálf­krafa boð í sýna­töku.

Þrjár valmyndir blasa við eftir að uppsetningu appsins er lokið. Á þeirri fyrstu birtast tilkynningar um útsetningu fyrir smiti. Önnur er fyrir þá sem eru með staðfest smit en þar er hægt að deila niðurstöðu úr sýnatöku. Þriðja valmyndin geymir stillingar