Ekki stendur til að rífa eða selja ráðhúsið í Borgarbyggð eftir að rakaskemmdir fundust í húsnæðinu.

Framkvæmdir eru hafnar á ráðhúsinu og hefur byggðarráð falið sveitarstjóra að finna tímabundið húsnæði fyrir hluta eða alla starfsemi ráðhússins.

Svæðið hefur verið afgirt starfsstöðvar starfsmanna í nálægð við skemmdirnar færðar. „Öryggi og heilsa starfsmanna hefur og verður ávallt í fyrirrúmi,“ segir í tilkynningu frá samskiptastjóra en þar kemur einnig fram að sérfræðingar meti svo að einungis þurfi að flytja hluta af starfseminni úr Ráðhúsinu.

Framkvæmdir hófust í síðustu viku og í ljós kom að rakaskemmdirnar eru umfangsmeiri en upphaflega var talið og því ljóst að endurbæturnar komi til með að taka lengri tíma en áætlað var.

Guðveig Eyglóardóttir sveitarstjórnarfulltrúi lagði til að húsið yrði selt eða rifið í þessu ástandi en samskiptastjóri Borgarbyggðar segir fullnægjandi að fara í endurbætur á húsinu.

Skessuhorn fjallaði um málið í síðustu viku og vitnaði í heimildir sínar um að sveitarfélaginu hafi verið boðið að kaupa hús Arionbanka við Digranesgötu og að líklegt væri að starfsemin myndi færast þangað en samskiptastjóri segir engar ákvarðanir hafa verið teknar.

„Á þessum tímapunkti máls liggja ekki fyrir framtíðaráform Ráðhússins. Brýnt er að klára að gera heildarúttekt á öllu húsnæðinu áður en ákvörðun er tekin um framtíðarstaðsetningu þess. Engin áform eru um að rífa húsið, heldur er fullnægjandi að fara í endurbætur á húsinu. Byggðarráð ákvað á fundi sínum 21. janúar s.l. að ljúka við úttekt og í framhaldinu skoða viðeigandi aðgerðir í kjölfarið. Ekki hefur verið ákveðið hvert hluti af starfseminni flyst á meðan unnið er að endurbótum.“

Guðveig Eyglóardóttir, oddviti Framsóknarflokksins í Borgarbyggð.