Öll vinna hefur verið bönnuð í vaktherbergi og lyfjaherbergi á lungnadeild Landspítalans vegna rakaskemmda. Þetta er niðurstaða Vinnueftirlitsins eftir eftirlitsheimsókn starfsmanna á lungnadeild A6 þann 29. janúar síðastliðinn. 

Á vef Vinnueftirlitsins kemur fram að meðal annars hafi fundist rakaskemmdir og megn fúkkalykt í vaktherbergi og lyfjaherbergi. Þar af leiðandi hafi öll vinna verið bönnuð í herbergjunum þar sem lífi og heilbrigði starfsmanna sé talin hætta búin, þar til búið er að gera úrbætur á. Eins kemur fram að þrátt fyrir bannið geti Landspítalinn enn unnið að úrbótum í fyrrgreindum herbergjum.