Harpa Reynis­dóttir vekur á því at­hygli í færslu á Face­book að barna­bíl­stóll sem hún leigði af VÍS brotnaði í sundur þegar barns­faðir hennar rak hönd sína í hann. Þá kom í ljós að bíl­stóllinn hafði áður brotnað og verið límdur saman aftur með lím­bandi.

Fé­lagið gaf í apríl síðast­liðnum út til­kynningu þar sem kom fram að VÍS hefði á­kveðið að hætta út­leigu á slíkum barna­bíl­stólum. Í til­kynningunni var þó tekið fram að þeir sem eru með stól á leigu geti notað þá á­fram eins lengi og henti.

„Við leigðum þennan stól af VÍS fyrir ein­hverjum mánuðum síðan. Hann brotnaði þegar Unnar rann til með hendina þegar hann var að færa stólinn í annan bíl. Rak hendina í með engum àtökum! Öryggið er þá ekki mikið í á­rekstri er það!?“ skrifar Harpa. Hún segir að sér beri skylda til að deila þessu.

Þegar Harpa hafi skoðað stólinn betur hafi komið í ljós að áður hafi verið búið hafi verið að líma hann sama með lím­bandi. „Þegar ég skoðann betur þá er nú búið að teipann einu sinni áður...frá­bært!“

„Hug­myndin er góð með að leigja út bíl­stóla en það þyrfti veru­lega að setja stífari kröfur hvað er ó­nýtt og hvað ekki!! Èg er að­eins fok­held yfir þessu og búin að til­kynna þetta til VÍS og að sjálf­sögðu kaupa nýjan stól.“

Í sam­tali við Frétta­blaðið segist Harpa hafa verið í sjokki þegar í ljós kom hvernig á­standi stóllinn var í. „Ég bý sem­sagt á Sel­fossi og hringdi í VÍS og sagði þeim frá því hvað hefði gerst. Ég sagði þeim að ég væri í sjokki yfir því a þeir væru enn að leiga þetta út vegna þess að þetta snýst um öryggi barnsins míns,“ segir Harpa.

Hún segist hafa sagt þeim að hún hafi ekki haft á­huga á að fá annan. Fjöl­skyldan hafi keypt nýjan. „Ég rak ekki augun í að hann hafi verið teipaður saman fyrr en í morgun og þá varð ég enn meira sjokkeruð.“

„Mér fannst þau ekki eins sjokkeruð og ég. En ég var enn frekar reið og reyndi að passa mig, sagði starfs­manninum að þetta væri ekki við hana að sakast en sagði að það hlyti ein­hver að þurfa að fara yfir þessa stóla,“ segir Harpa.

Hún segir að ein­hverjir hafi sagt í um­ræðum við færsluna að höfuð­púðinn eigi ekki að skipta máli, taki mesta höggið af og eigi að brotna í á­rekstri. „En ég meina hann er límdur saman, er hann þá búinn að lenda í á­rekstri, hann getur þá varla verið öruggur lengur.“

„Maður spyr sig bara ef að þetta plast brotnar svona, hvernig er þá restin af plastinu í stólnum? Er stóllinn þá ó­geðs­lega gamall?“ segir Harpa en hún sendi í dag Slysa­vörnum barna erindi vegna málsins og bíður enn svara.

„Ég bara neita að trúa því að það sé í lagi að teipa bara stól.“