Pedro Sánchez, formaður spænska Sósíalistaflokksins (PSOE), er tekinn við embætti forsætisráðherra Spánar af Mariano Rajoy, formanni Partido Popular flokksins. Rajoy tókst ekki að verjast vantrausti en kosið var í spænska þinginu í dag. 

Sánchez hefur hingað til farið fyrir stjórnarandstöðunni, og hefur í raun verið formlegur leiðtogi hennar. Í gær kom í ljós að flokkur Baska á spænska þinginu (PNV) ætlaði að styðja vantraust stjórnarandstöðuflokkanna fimm. 180 kusu með vantrausti á Rajoy en 169 gegn.

Ástæðan fyrir því að tillagan var sett fram er einna helst umfangsmikið spillingarmál innan raða Partido Popular, flokks Rajoy, sem er með flesta fulltrúa á þingi. 

Á dögunum voru 29 flokksmenn dæmdir í 351 ár í fangelsi samanlagt í hinu svokallaða Gurtel-máli. Málið komst upp eftir að El País birti skjöl sem Luis Barcenas, fyrrverandi gjaldkeri PP, skrifaði um ólöglegar greiðslur til ýmissa flokksmanna.

„Við ætlum að endurskrifa sögu lýðræðis í landinu,“ sagði Sánchez í aðdraganda atkvæðagreiðslunnar um vantraustið.

Sánchez steig í pontu að Rajoy hefði enn tíma til að afstýra þeim örlögum sínum að verða fyrsti spænski forsætisráðherrann sem tapar atkvæðagreiðslu sem þessari. „Ert þú tilbúinn til þess að segja af þér núna? Segðu af þér í dag og þú færð að fara á eigin forsendum. Þú tilheyrir fortíðinni, ert hluti af kafla sem þetta ríki er að fara að loka,“ sagði Sánchez.

Rajoy lét hins vegar reyna á atkvæðagreiðsluna í þinginu og bar ekki árangur sem erfiði.