Harð­línu­maðurinn Ebra­him Raisi verður næsti for­seti Íran en hann hlaut flest at­kvæði í kosningum sem voru í gær. Raisi er mjög í­halds­samur og er dómari við æðsta dóm­stól landsins. Hann hefur verið tengdur við af­tökur pólitískra fanga á níunda ára­tugnum en að sögn Am­ne­sty var hann einn fjögurra dómara sem sá til þess að um fimm þúsund fangar voru teknir af lífi.

For­seti Íran er annar æðsti em­bættis­maður landsins, á eftir æðsta­klerkinum, sem nú er Ali Kho­meini. Raisi mun hafa tals­vert vald yfir innan­ríkis- og utan­ríkis­málum þó að loka­á­kvarðanir liggi á­vallt hjá Kho­meini.

Í frétt breska ríkis­út­varpsins um kosningarnar segir að margir Íranir hafi á­litið kosningarnar sniðnar að þörfum Raisi og að honum hafi alltaf verið ætlað að sigra þær. Raisi er 60 ára gamall og hefur lengst af starfað sem sak­sóknari. Hann var til­nefndur hæsta­réttar­dómari fyrir tveimur árum eftir að hann tapaði í for­seta­kosningunum fyrir Hassan Rou­hani fyrir tveimur árum.

Hann er sagður mjög tryggur æðsta­klerkinum og að hann gæti mögu­lega verið arf­taki hans.

Greint er frá á BBC.