Fjörutíu- og fjögurra milljón króna sýningarréttargreiðsla á þáttunum Ráðherrann sem gjaldfærð var fyrir árið í fyrra var ekki í gögnum sem Ríkisútvarpið afhenti Fréttablaðinu. Var upphæðin sem Saga Film fékk greidda fyrir þættina 126 milljónir króna í fyrra en ekki 82 milljónir. Þegar sú greiðsla er tekin með í reikninginn stemma gögnin við tölur sem birtar voru í ársskýrslu RÚV fyrir árið í fyrra.

Í svari RÚV við fyrirspurn blaðsins segir að greiðslan hafi verið tekin út fyrir sviga en hafi átt að vera tekin með í reikninginn. Samkvæmt viðmiðum í þjónustusamningi mennta- og menningarmálaráðuneytisins við Ríkisútvarpið bar stofnuninni að verja 11 prósentum af heildartekjum sínum í fyrra til kaupa af sjálfstæðum framleiðendum.