Aðalmeðferð fór fram í máli íslenska ríkisins gegn Hafdísi Helgu Ólafsdóttur í gær. Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, stefnir Hafdísi og vill ógilda úrskurð kærunefndar jafnréttismála um að ráðherrann hafi brotið lög með því að ráða Pál Magnússon sem ráðuneytisstjóra.

Ríkið segir kærunefndina ekki hafa rannsakað ráðningarferlið nægilega vel, en lögmaður Hafdísar segir ráðherrann hafa litið fram hjá nefndinni og farið beint í dómsmál.

„Ráðherra hunsar algjörlega kærunefndina og svarar henni varla. Nefndin taldi málatilbúnað ráðherra hafa skort verulega á í efnislegum rökstuðningi og ekki var brugðist við fjölda athugasemda kærandans,“ sagði Áslaug Árnadóttir, lögmaður Hafdísar.

Víðir Smári Peterson, lögmaður íslenska ríkisins, sagði að Páll hefði staðið sig betur í atvinnuviðtalinu. Ekki væri hægt að líta fram hjá huglægu mati nefndar og ráðherra um leiðtogahæfni hans.

Hafdís sagði greinilegan blæbrigðamun í lýsingum hæfnisnefndar. Lítið hafi verið gert úr reynslu hennar í opinberri stjórnsýslu og rangt farið með hversu lengi hún hefði starfað hjá fjármála- og efnahagsráðuneytinu. „Hún starfaði við opinbera stjórnsýslu,“ skrifaði nefndin um 25 ára reynslu Hafdísar. „Hann hefur langa reynslu við ábyrgðarmikil stjórnsýsluverkefni,“ var skrifað um Pál sem hefur meistarapróf í opinberri stjórnsýslu.

„Hvernig er hægt að halda því fram að þessi munur sé smávægilegur?“ sagði Hafdís.