Mál hinnar sádí-arabísku Rahaf Mohammed al-Qunun sem vakið hefur heimsathygli undanfarna viku virðist nú vera að ljúka með farsælum hætti en erlendir miðlar greina frá því að Rahaf sé lent í Toronto í Kanada en yfirvöld þar í landi greindu frá því í gær að þau hefðu samþykkt hælisumsókn hennar.

Ljóst er að Rahaf var gífurlega spennt þegar hún mætti til Toronto en hún hefur haldið uppteknum hætti og uppfærir Twitter síðu sína reglulega. „GMG....ég er í Kanada allir!“ og birti hún myndband af flugvélinni sinni lenda á flugvellinum. 

Á flugvellinum tók utanríkisráðherra Kanada við henni, Chrystia Freeland, en hún hefur reglulega gagnrýnt stjórnvöld í Sádí-Arabíu fyrir framkomu sína gagnvart konum. „Þetta er Rahaf al-Qunun, hugrakkur nýr Kanadabúi,“ sagði Freeland við tækifærið.

Fréttablaðið hefur greint ítarlega frá máli Rahaf en mál hennar vakti eins og áður segir heimsathygli í byrjun þessarar viku þegar hún flúði fjölskyldu sína í Kúveit og til Tælands en þaðan var vegabréf hennar tekið af henni og átti að senda hana aftur til baka. 

Hún greip þó til sinna ráða og læsti sig inni á hótelherbergi sínu og vakti athygli á máli sínu á Twitter þar sem hún sagði frá því að hún hefði snúið baki sínu við íslamstrú og því væri hún í hættu vegna fjölskyldu sinnar. Tælensk stjórnvöld hættu við að senda hana úr landi og komu henni í umsjá flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðarinnar áður en að kanadísk yfirvöld samþykktu í gær að taka á móti henni.

„Við erum afar ánægð með að hafa brugðist við þessu þar sem að Kanada er land sem skilur hve mikilvægt það er að standa upp fyrir mannréttindum og réttindum kvenna um allan heim,“ sagði forsætisráðherrann Justin Trudeau við tilefnið í gær.

Yfirvöld í Kanada og Sádí-Arabíu hafa að undanförnu eldað grátt silfur saman en síðasta sumar ráku yfirvöld í Sádí-Arabíu kanadíska erindreka úr landinu og kölluðu heim sádí-arabíska háskólanema frá landinu eftir að stofnun kanadíska ríkisins gagnrýndi yfirvöld vegna mannréttindamála.