Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir, varaborgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, hyggst gefa kost á sér í oddvitasæti Sjálfstæðisflokksins fyrir borgarstjórnarkosningarnar í vor. Þetta herma heimildir Fréttablaðsins.

Hildur Björnsdóttir, borgarfulltrúi, gaf kost á sér í oddvitasætið í desember síðastliðnum.

Ragnhildur Alda hefur verið varaborgarfulltrúi frá árinu 2018, hún skipaði ellefta sætið á lista flokksins fyrir borgarstjórnarkosningarnar það ár og sjöunda sæti á lista flokksins í Reykjavík suður fyrir þingkosningarnar síðasta haust.

Sjálfstæðisflokkurinn í Reykjavík mun halda opið prófkjör í Reykjavík fyrir komandi borgarstjórnarkosningar. Ekki var samþykkt að loka kjörskrá tveimur vikum fyrir prófkjörið, sem fer fram 12. eða 19. mars næstkomandi.

Fyrir kosningarnar 2018 hélt flokkurinn leiðtogakjör þar sem Eyþór Arnalds hlaut oddvitasætið, hann gefur ekki kost á sér á ný. Mikil óánægja var innan flokksins í desember síðastliðnum þegar til stóð að halda annað leiðtogaprófkjör.

Hildur Björnsdóttir borgarfulltrúi og Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir varaborgarfulltrúi gefa kost á sér í oddvitasætið. Marta Guðjónsdóttir borgarfulltrúi, Þorkell Sigurlaugsson, formaður velferðarnefndar Sjálfstæðisflokksins, og Kjartan Magnússon, fyrrverandi borgarfulltrúi, sækjast eftir öðru sæti. Valgerður Sigurðardóttir, borgarfulltrúi, hefur ekki gert upp hug sinn.