Ragnar Þór Ingólfsson telur litlar líkur á því að stjórn­mála­hreyfing sem hann hefur kynnt hug­myndir um að verka­lýðs­hreyfingin stofni, komi til með að bjóða fram í kosningum. Hann segir að hug­myndina mætti einnig túlka sem þrýsting á stjórn­mála­menn um að gera breytingar og að stuðningur innan hreyfingarinnar sé að aukast. Könnun á mögulegu fylgi stjórnmálaflokks á vegum verkalýðshreyfingarinnar verður kynnt fyrir mið­stjórn ASÍ á fundi á morgun.

Frekar verið að mynda þrýsting

„Ég tel ekki vera miklar líkur á því að verka­lýðs­hreyfingin sé að fara að bjóða fram. Hún gat varla staðið saman í síðustu kjara­samningum þannig að það eru ekki miklar líkur á því.,“ segir Ragnar í sam­tali við Frétta­blaðið.

Hann segir það hins vegar vera skyldu verka­lýðs­hreyfingarinnar að þrýsta á að breytingar verði gerðar á stjórn­málum. „Hvort að það verður í formi fram­boðs eða formi þess að þrýsta á ein­hverja stjórn­mál­flokka sem ætla að bjóða fram verður bara að koma í ljós,“ segir Ragnar í sam­tali við Frétta­blaðið.

Spurður að því hvort að laun­þegar sem greiði í verka­lýðs­fé­lögin væru ekki settir í skrítna stöðu ef verkalýðsfélög stofnuðu stjórnmálaflokka og væru þannig orðnir ó­beinir þátt­tak­endur í pólitískri bar­áttu segist Ragnar ekki líta svo á að fram­boð verka­lýðs­hreyfingarinnar væri pólitískt.

„Ég lít meira á þetta sem nauð­vörn hreyfingarinnar frekar en eitt­hvert pólitískt afl sem á að vera virkt til ei­lífðar­nóns.“ Það megi líta svo á að verið sé að þrýsta á stjórn­mála­flokka að „hysja dug­lega upp um sig eftir það að hafa boðið kjós­endum upp á sama lof­orða­flauminn kjör­tíma­bil eftir kjör­tíma­bil um að­gerðir í grund­vallar­málum en svikið það jafn­harðan eftir að hafa komist til valda.“

Ekki ó­sætti innan hreyfingarinnar

Ragnar neitar því að orð hans um að verka­lýðs­hreyfingin hafi varla getað staðið saman í síðustu kjara­við­ræðum, megi túlka sem svo að ó­sætti ríki á milli VR og Eflingar, en stjórn Eflingar hefur oft verið tengd við Sósíal­ista­flokkinn.

„Ég er meira að tala um að þegar nýja fólkið kemur inn í hreyfinguna og þar mætast kjarninn sem studdi fyrri stefnu Al­þýðu­sam­bandsins og fólkið sem var að kalla eftir breytingum.“ Sem betur fer hafi hreyfingin þó geta staðið saman að lokum.

Hefur mest fylgi sam­kvæmt könnun

Könnunin sem stjórn VR lét gera til þess að kanna mögu­legan stuðning við stjórn­mála­afl á vegum verka­lýðs­hreyfingarinnar, verður kynnt á mið­stjórnar­fundi ASÍ á morgun.

Sam­kvæmt þeim niður­stöðum sem voru kynnt fjöl­miðlum höfðu 23 prósent svar­enda á­huga á að kjósa slíkan flokk. Það myndi gera hann að stærsta stjórn­mála­flokki landsins, en til saman­burðar mældist Sjálf­stæðis­flokkurinn stærstur í síðustu könnun, með tuttugu prósenta fylgi.

Ragnar segir að í kjöl­far fundar mið­stjórnarinnar á morgun muni könnunin og öll gögn verða gerða opin­ber.