Ragnar Þór Ingólfs­son, for­maður VR, segir sam­fé­lags­legum gildum Ís­lendinga vera ógnað í ljósi um­fjöllunar á fram­ferði Sam­herja í sjávar­út­vegi í Namibíu en hann birti í dag færslu á Face­book síðu sinni þar sem hann tjáir sig um málið.

„Stjórn­endur Sam­herja og strengja­brúður þeirra hafa sýnt það í orði og á borði að iðrun er engin, ENGIN, og allt kapp er lagt í að af­vega­leiða um­ræðuna og skella skuldinni á aðra,“ skrifar Ragnar í færslunni. „Skítt með verknaðinn, skítt með hann. Skítt með fólkið, skítt með það.“

Ragnar segir málið að mörgu leyti vera mikið flóknara en það sem hefur komið fram og að mál Sam­herja eigi sér að­draganda og sögu. „Málið lýsir ógn­væn­legu og sið­lausu við­horfi peninga­afla til sam­fé­laga, lýsir for­dæma­lausum hroka og vilja­leysi til þátt­töku í upp­byggingu inn­viða. Lýsir af­dráttar­lausum hroka og ein­beittum brota­vilja.“

Spilling og peningaþvætti orðið að þjóðaríþrótt Íslendinga

„Þetta eru ná­kvæm­lega sömu vinnu­brögðin og hafa verið stunduð hér á landi, bæði í nú­tíð og for­tíð,“ skrifar Ragnar og vísar þar til eftir­mála efna­hags­hrunsins. „Fólkinu var fórnað eins og að drekka vatn. Sama er við­horf þeirra sem svindluðu mest á þjóðinni, og gera jafn­vel enn, og telja sig jafn­vel vera hin raun­veru­legu fórnar­lömb.“

Að sögn Ragnars hefur peninga­þvætti og spilling orðið að eins konar þjóðar­í­þrótt Ís­lendinga og að þeir sem stundi slíkt geri það með stuðningi stjórn­valda. „Getu­leysið til að spyrna við í­tökum hags­muna­afla í okkar sam­fé­lagi er al­gjört,“ skrifar Ragnar og segir að um­burðar­lyndi Ís­lendinga hafi farið yfir öll mörk en nú sé komið að stóra prófinu hjá þjóðinni.

„Stjórn­völd eru dofin, úr­ræða­laus, getu­laus og í raun bullandi með­virk. Stjórn­málin virðast ekkert geta gert nema stíga á tærnar á sjálfum sér og allir eru voða­lega sorg­mæddir yfir stöðunni. Leiðir yfir því hvernig fór og leiðir yfir því hversu getu­laus við erum í að spyrna við fótum,“ skrifar Ragnar og spyr hversu lengi hægt sé að svíkja heila þjóð.

Vill að verka­lýðs­hreyfingin fari af stað með þver­pólitískt fram­boð

Þá segir Ragnar að kjós­endur hafi ekki mikla mögu­leika til þess að knúa fram raun­veru­legar breytingar og segir hags­muna­aðila og peninga­öfl á­vallt ná yfir­höndinni í að­draganda kosninga. „Með­virkni og upp­gjöf þeirra stjórn­mála­flokka sem fengið hafa tæki­færi síðustu ára­tugi til að vinda ofan af spillingunni er al­gjör. Al­gjör! Það er jafn­vel erfitt að greina hvort vinstri eða hægri vöndurinn hafi verið þjóðinni harðari,“ skrifar Ragnar.

„Er ekki kominn tími á að kjós­endur fái raun­hæfan val­kost? Val­kost sem snýr að raun­veru­legum breytingum á kerfi sem merg­sýgur sam­fé­lagið að utan sem innan,“ skrifar Ragnar en hann segir val­kostinn geta verið sá að verka­lýðs­hreyfingin fari af stað með þver­pólitískt fram­boð.

„Ég skora hér með á verka­lýðs­hreyfinguna að standa undir nafni og leiða fram slíkan val­kost. Val­kost mál­efna sem ekki verður haggað eða gjald­felldar á valda og bitlinga­hlað­borði ríkjandi afla. Ég get ekki séð að ný og öflug verka­lýðs­hreyfing geti skorast undan slíkri á­byrgð öðru­vísi en að senda reikninginn til komandi kyn­slóða. Tökum málin í eigin hendur og stigum fram sem sam­einað um­bóta­afl gegn spillingunni,“ skrifar Ragnar að lokum.

Stóra prófið! Það eru blikur á lofti í íslensku samfélagi eftir fréttaflutning af framferði stórfyrirtækis í...

Posted by Ragnar Þór Ingólfsson on Saturday, November 16, 2019