„Það er ekkert í okkar samningum sem kveður á um slíkt,“ segir Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, um þær fullyrðingar að taka þurfi upp nýgerða samninga Samtaka atvinnulífsins ef samtökin semji um annað við Eflingu.

Halldór Benjamín Þorgrímsson, framkvæmdastjóri SA, hefur ítrekað sagt að ekki sé hægt að semja um annað við Eflingu en gert hafi verið í samningum við VR og Starfsgreinasambandið. Meðal annars sagði Halldór í Silfrinu á RÚV sunnudaginn 15. janúar síðastliðinn, að vandinn væri sá að ef SA féll­ist á nálg­un Efl­ing­ar þyrftu sam­tök­in að taka upp nýgerða kjara­samn­inga við aðra, sem meðal annars er VR.

Ragnar Þór segist ekki vita hvað Halldór sé að vísa í.

„Við erum ekkert með í okkar samningum sem læsir aðra inni eða eitthvað slíkt. Það eru engar kvaðir í okkar samningi sem kveða á um að það þurfi að taka upp okkar samning, sé samið með öðrum hætti við önnur stéttarfélög,“ segir Ragnar. Ef slíkt væri raunin hefði þegar orðið af því þar sem verkfræðingar hafi síðar samið með öðrum hætti en VR. „Þeir gera samning þar sem prósentuhækkunin gildir lengra upp launastigann.“

Ragnar bendir á að margir kjarasamningar losni á næstunni. „Þetta er allt að fara af stað. Þó að við höfum gengið frá skammtímasamningi þá eru margar stéttir eftir. Þannig að ég reikna með að þetta verði erfiður róður hjá fleiri stéttarfélögum en Eflingu,“ segir Ragnar Þór. „En þetta náttúrlega endar allt á einn veg; það verður gerður kjarasamningur. Ég bara að vona að það náist góð niðurstaða.“