Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR hefur tilkynnt að hann muni bjóða sig fram til forseta Alþýðusambands Íslands á næsta þingi sambandsins sem fer fram dagana 10. til 12. október.

„Það er staðfest, það var starfsmannafundur í morgun og stjórnarfundur í gærkvöldi þar sem ég tilkynnti framboðið og við ræddum um stöðuna og næstu skref," sagði Ragnar Þór.

Rúmur mánuður er síðan Drífa Snædal fyrrverandi forseti ASÍ tilkynnti uppsögn sína sem hún sagði að kæmi í kjölfar "óbærilegra átaka" innan ASÍ.

Ragnar Þór er sá fyrsti sem tilkynnir um framboð sitt til embættisins en hann hafði áður gefið út, í upphafi vikunnar, að hann myndi tilkynna um niðurstöðu sína í dag.

Ragnar Þór mun áfram starfa sem formaður VR jafnvel þótt hann hljóti kjör sem forseti ASÍ en hann hefur starfað sem formaður VR síðan 2017. Hann myndi þó fela öðrum einstaklingi að taka við sem starfandi formaður VR en kjörtímabil hans rennur sitt skeið á næsta ári.

„Við erum í miðjum kjarasamningum og ég mun láta af störfum sem starfandi formaður en ekki segja af mér sem slíkur,“ segir Ragnar og tekur fram að hann muni áfram leiða þá vinnu með samninganefnd og stjórn félagsins „við munum þá deila út þeim verkefnum sem standa útaf borðinu innan stjórnar. En svo er það stutt í kosningar hjá félaginu að það væri í sjálfu sér afar slæmt fyrir VR að fara að gera breytingar inn í kjarasamninginn sem við erum byrjuð að ræða núna," segir Ragnar Þór.

Ragnar Þór er sá fyrsti sem tilkynnir framboð sitt til forseta ASÍ en Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar og Vilhjálmur Birgisson, formaður Starfsgreinasambandsins og VLFA höfðu áður útilokað að þau myndu bjóða sig fram til embættisins.

Fundaði með aðildarfélögum síðustu daga

Síðustu daga hefur Ragnar Þór fundað með aðildarfélögum innan Alþýðusambandsins, til þess finna hvort hljómgrunnur sé fyrir þeim hugmyndum sem hann hefur um framtíð sambandsins.

„Ég hef verið að funda með og rætt við fjölda fólks innan hreyfingarinnar sem slíkrar. Sem nær úr fyrir þann hóp sem fór inn í síðustu kjarasamning og þá nefni ég Grindavík, Húsavík, Akranes og náttúrulega félaga okkar í Landssambandi Verslunarmanna, þar eru verslunarmannafélögin eins og Akureyri. Sömuleiðis líka forsvarsmenn Eflingar,“ segir Ragnar Þór en hann segir að það sem ráði úrslitum um framboð hans er að hann sjái tækifæri til að sameina aðildarfélög ASÍ.

„Fólk virðist vera tilbúið að slíðra sverðin og gera atlögu að því að gera Alþýðusambandið að því afli sem því var upphaflega ætlað að vera. Við erum með sambærilega hugmyndir um að efla Alþýðusambandið og styrkja en ekki að rífa það niður," segir Ragnar Þór.

Mun reyna að sameina Alþýðusambandið

„Ég fer í þetta með það markmið að styrkja Alþýðusambandið og efla það til mikilla muna og sameina aðildarfélögin og það afl sem sambandið getur orðið. Það er mitt eina markmið," segir hann.

Aðspurður um það hvort framboð hans muni lægja öldurnar innan verkalýðshreyfingarinnar segir hann svo vera. „Ég ætla allavega að gera heiðarlega tilraun. Til þess að sameina þessa krafta sem búa í þessari hreyfingu og beina honum í rétta og sömu átt. Það er heljarinnar verkefni,“ segir Ragnar Þór.

„Ég myndi segja að það væri á það reynandi miðað við verkefnin sem framundan eru sem vissulega eru gríðarlega krefjandi. Ekki bara gagnvart okkar viðsemjendum heldur líka gagnvart stjórnvöldum. Að það sé á það reynandi að sjá hvort mér takist það verkefni að sameina Alþýðusambandið sem sterka heild en ekki sundraður hópur. Ég væri ekki að gefa kost á mér nema ég hefði trú á því að mér takist það,“ segir Ragnar Þór en kosning til forsetna ASÍ mun fara fram dagana 10. til 12. Október.

Fréttin hefur verið uppfærð klukkan 10:50 eftir að Fréttablaðið náði tali af Ragnari Þór