Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, segir allt hafa sín mörk og stundum sigri hatrið. „Hatrið sigraði mig í dag.“

Frá þessu greinir hann á Facebook-síðu sinni en hann segir síðustu daga og vikur fyrir þing ASÍ hafa litast af ótrúlega ósmekklegri orðræðu og árásum á sína persónu.

Líkt og greint hefur verið frá dró Ragnar Þór framboð sitt til forystu Alþýðusambands Íslands til baka á þingi sambandsins í dag líkt og Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, og Vilhjálmur Birgisson, formaður Starfsgreinasambandsins.

„Undanfarið hafa dunið á mér ásakanir um ofbeldi og því slegið upp á forsíðum og með greinarskrifum, undirrituðu af fullorðnu fólki.

Fólki sem með réttu ættu að kallast félagar mínir. Ég er vændur um að sækjast í völd, öskri og skelli hurðum ef ég fæ ekki mínu fram og vilji reka fólk fyrir engar sakir.

Þrátt fyrir að hafa tekist, ásamt stjórn VR, að skapa frábæra stemningu og liðsheild innan VR síðustu 6 ár. Þar hefur samt engum verið sagt upp og starfsánægja með því sem best þekkist.

En allt þetta skiptir engu máli. Sé lygin sögð nægilega oft fer fólk að trúa henni. Trúa því að þetta sé mögulega satt,“ segir Ragnar Þór meðal annars í færslu sinni.

Ragnar Þór segist hafa farið inn á þing ASÍ með háleit markmið og einlæga von um að þeim tækist að snúa bökum saman og hugsa um fólkið.

„Ég bauð mig fram til að leiða þetta verkefni. Ekki af því að ég er sjúkur í völd heldur vegna þess að ég hafði trú á því að þetta væri hægt, í ljósi þess hversu vel okkur hefur tekist til í VR við að sameina ólík sjónarmið og vinna sem ein heild, ekki meiri eða minnihluti heldur liðsheild,“ segir hann og bætir við að í morgun hafi hann fengið enn eitt skjáskotið þar sem hann er sakaður um ofbeldi og að markmið hans sé að segja upp öllu starfsfólki.

„Þegar börnin mín lesa fyrirsagnir um að pabbi þeirra stundi ofbeldi og reki fólk fyrirvaralaust eða heyra því hvíslað á förnum vegi, brestur eitthvað.

Ég ræddi þetta við konuna mína yfir kaffibolla í morgun, eftir að við lásum nýjustu árásina í minn garð. Árás á mína æru og persónu. Árás á miðju þingi ASÍ sem ég vonaðist til að vera vettvangur sátta. Ákváðum við í sameiningu að þetta væri ekki þess virði. Því miður.

Ég skal viðurkenna það að ég átti mjög erfitt eftir að ég tók þessa ákvörðun og var við það að brotna niður. Ekki vegna þess að ég fengi ekki meiri völd, heldur að sjá á eftir tækifærinu sem við höfðum til að verða ósigrandi. Ég trúði þessu svo innilega að þetta væri hægt og hvað við ætluðum að ná miklu fram fyrir fólkið okkar,“ segir Ragnar Þór jafnframt í færslu sinni.

Ragnar Þór segist þó finna fyrir létti eftir að hafa dregið framboð sitt til baka. Hann hafi haft val og í dag hafi hann valið að vinna frekar með öllu því frábæra fólki sem starfi á vettvangi VR.

Færslu Ragnars Þórs má lesa í heild sinni hér að neðan.