„Ég tel orku minni betur varið á öðrum vett­vangi en þessum,“ segir Ragnar Þór Ingólfs­son, for­maður VR, en hann hefur á­kveðið að segja sig úr mið­stjórn ASÍ.

Eins og RÚV­ greindi frá nú í há­deginu hefur Vil­hjálmur Birgis­son, for­maður Verka­lýðs­fé­lags Akra­ness og 1. vara­for­seti ASÍ, á­kveðið að segja af sér vara­for­manns­em­bættinu. Vil­hjálmur sagði af sér í mót­mæla­skyni því verka­lýðs­hreyfingin vildi ekki lækka mót­fram­lag í líf­eyris­sjóði at­vinnu­rek­enda úr 11,5% í 8%. ASÍ hafnaði í dag mála­leitan Sam­taka at­vinnu­lífsins um að leita leiða til að draga úr launa­kostnaði fyrir­tækja og hafa Sam­tök at­vinnu­lífsins lýst von­brigðum með á­kvörðunina.

Ólík sýn

Að­spurður um á­stæður þess að Ragnar Þór hverfi nú af vett­vangi mið­stjórnar ASÍ segir hann að sýn hans og annarra sé ekki sú sama um þá stöðu sem uppi er í sam­fé­laginu og hvernig þarf að bregðast við.

„Sýn manna á þetta er bara mjög ólík. Það sem snýr að okkur snýst ekki endi­lega um þessa leið heldur frekar þær á­herslur og hug­mynda­fræði um hvað má og hvað má ekki. Það virðist mega að fresta launa­hækkunum en þegar kemur að tali um líf­eyris­sjóðina eins og oft áður þá er dekrið í kringum það kerfi með þeim hætti að sú stefna hefur ekkert breyst með nýrri stjórn ASÍ,“ segir hann og bætir við að það megi ekki hrófla við þessu kerfi – kerfi sem þarf ekkert endi­lega á þessum peningum að halda í þeirri stöðu sem nú er uppi.

Ágreiningur um leiðir

„Okkar stefna og mark­mið voru skýr: Það var að verja kaup­máttinn, verja launa­hækkanirnar og verja störfin. Það hafa allir sama mark­mið en það er á­greiningur um leiðir,“ segir Ragnar sem telur að hans orku sé betur varið innan VR og á vett­vangi þess fé­lags.

Vil­hjálmur sagði í sam­tali við Morgun­blaðið ­í há­deginu að málið snerist um að verja störf. „Ef okk­ur tekst að verja 100 störf, 200 störf, 500 störf eða 1000 störf með slíkri að­gerð, tíma­bund­inni að­gerð, þá væri fólg­inn mik­ill á­vinn­ing­ur í því. Að fresta tíma­bundið fram­lagi í líf­eyr­is­­sjóði, sem hef­ur sára­lít­il á­hrif á rétt­indi fé­lags­manna til lengri tíma litið, er skásti kost­ur­inn,“ sagði hann meðal annars.