Ragnar Þór Ingólfs­son for­maður VR segir að sér finnist ein­kenni­legt hvernig þing ASÍ endaði, en þinginu var í dag frestað í sex mánuði. Hann er ánægður með ákvörðunina að hafa dregið framboð sitt til baka og segir það vera létti.

Hver eru þín fyrstu við­brögð við að þingi ASÍ hafi verið frestað?

„Það eru í sjálfu sér bara enginn við­brögð við því. Heitasta ósk þessa hóps sem fór hvað harðast gegn okkur var að losna við okkur. Við stigum til hliðar og réttum þeim kyndilinn. Mér finnst ein­kenni­legt að þetta skuli enda svona, ef að stuðningurinn var ekki meiri en þetta,“ segir Ragnar.

Hann vill ekki segja hvort hann ætli að bjóða sig fram á þinginu eftir sex mánuði, en hann í hans augum er ASÍ ekki vett­vangur kjara­bar­áttunnar.

„Ég sagði skilið við þetta í gær og geri það í góðu. Ég sá fram á það að þessum á­rásum myndi ekkert linna, alveg sama hvort ég næði kjöri eða ekki eða hvernig sem þetta færi. Reyndar hef ég fundið það eftir á að stuðningurinn var mjög mikill. Ég reiknaði nú alveg með því að hafa stuðning en kannski ekki svona mikinn. En það breytir því ekki að þessum of­beldis- og valda­sýkis­á­sökunum hefði aldrei linnt. Þetta snerist aldrei um mál­efnið og fólkið okkar,“ segir Ragnar.

„Ég get sagt þér það að taka þessa á­kvörðun var of­boðs­legur léttir. En að sama skapi þá ber ég engan kala til þessa fólks og gangi þeim bara of­boðs­lega vel í bar­áttunni fyrir sín fé­lög. Ég skil alveg ekki hvað gerðist í dag, en það verða aðrir að svara fyrir það,“ segir Ragnar.

Hefur fundið fyrir miklum stuðning

Ragnar segir að hann hafi fundið mikinn stuðning við á­kvörðun sína að draga sig úr fram­boði. Hann segir að snemma hafi verið ljóst að bar­áttan myndi aldrei snúast um mál­efnið.

„Þegar ég er að drekka morgun­kaffið með konunni minni í gær­morgun og ég fæ sent skjá­skot frá einum af þessum aðilum sem hafa verið með mesta ó­hróðurinn um mig og okkur. Þar var ég enn og aftur sakaður um of­beldi, valda­sýki, annar­leg sjónar­mið, til að mynda að ég myndi segja upp öllu fólkinu á skrif­stofunni á ASÍ,“ segir Ragnar, en hann og eigin­kona hans ræddu málið og að lokum komust þau að þeirri niður­stöðu að þetta væri ekki þess virði.

„Fyrir mér er þetta léttir og góð á­kvörðun. Þetta hefði aldrei hætt, þetta hefði bara haldið á­fram. Vera mín innan Al­þýðu­sam­bandsins, eða þessi til­raun til að reyna efla þennan vett­vang er bara full­reynd að mínu mati og ég ætla ekkert að dvelja við þetta. Nú tekur annað við. Við erum að fara inn í kjara­samninga og núna get ég fengið að vinna með fólki sem kann að meta mín störf og störf stjórnarinnar. Það er gott að vera í VR, það er mikil virðing og sam­heldni,“ segir Ragnar.

Þrátt fyrir að Ragnar hafi dregið fram­boð sitt til baka þá segir hann að þetta sé ekki enda­lok þess sem verka­lýðurinn geti náð fram.

„Ég myndi segja að niður­staða sé ein­fald­lega sú að þessi vinna fer ekki fram á vett­vangi ASÍ. Ég held að það liggi nokkuð ljóst fyrir. En að sama skapi þá óska ég þessu fólki alls hins besta. Allt snýst þetta um að ná góðri niður­stöðu í kjara­samningum og ég bara vona að þau nái góðri niður­stöðu fyrir sitt fólk. Það er það sem skiptir máli,“ segir Ragnar.

Úrsögn úr ASÍ ekki á dagskrá

Ragnar segir að úr­sögn VR úr ASÍ sé ekki á dag­skrá, heldur að ná góðri niður­stöðu í kjara­samningum.

„Við erum að koma út úr þessu á­takaþingi og fólk er í á­falli. Það voru margir af okkar full­trúum á sínu fyrsta þingi og þau verða vitni af þessum á­rásum og ó­hróðri í okkar garð. En sam­heldni hópsins þarna inni var alveg gríðar­lega sterk og þetta er of­boðs­lega flottur hópur, eins og hefur ein­kennt okkar starf,“ segir Ragnar, sem vill ekki ræða úr­sögn úr ASÍ.

„Núna eru kjara­samningar í for­gangi og við viljum reyna ná góðri niður­stöðu. Þegar við erum búinn að klára þetta allt saman, þá getum við skoðað úr­sögn úr ASÍ. Ég tek ekki slíka á­kvörðun sem for­maður. Það er tekin á­kvörðun um þetta í stjórn og trúnaðar­ráði. Hvort við eigum heima þarna inni til lengri tíma eða ekki, það verður að koma í ljós. En ég ætla ekki að vera með ein­hverjar yfir­lýsingar á þessu stigi,“ segir Ragnar.