Ragnar Kjartansson hlaut hin virtu Ars Fennica verðlaun við hátíðlega athöfn í Amos Rex safninu í Helsinki í dag.

Verðlaunin eru styrkur upp á 40.000 evrur, eða rúmlega 5 og hálfa milljón, en Ars Fennica sjóðurinn var stofnaður af hjónunum Hennu og Pertti Niemistö árið 1990. Markmið sjóðsins er að örva listsköpun, skapa alþjóðleg tengsl í heimi myndlistar og vekja áhuga almennings á listum.

Sjóðurinn veitir verðlaunin annað hvert ár til myndlistarmanns sem þykir hafa skarað fram úr.
Aðeins einn Íslendingur hefur áður hlotið verðlauninn en það var Hreinn Friðfinnson, árið 2000.

Auk Ragnars Kjartanssonar var Egill Sæbjörnsson tilnefndur til verðlaunanna sem og þrír norrænir listamenn, Petri Ala-Maunus og Aurora Reinhard frá Finnlandi og Miriam Bäckström frá Svíþjóð. Samsýning á verkum þessara listamanna stendur nú yfir í Amos Rex safninu og hefur vakið mikla athygli.