Ragnar Freyr Ingvarsson, fyrrverandi yfirlæknir Covid-göngudeildarinnar og Læknirinn í eldhúsinu, segist skilja vel að kollegar hans, Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, og Már Kristjánsson, yfirlæknir smitsjúkdómadeildar á Landspítala, taki vangaveltum hans um að endurhugsa forgangsröðun varðandi skimanir vegna Covid-19 ekki fagnandi.

Ragnar greinir frá þessu á Facebook-síðu sinni.

Að sögn Ragnars hafa núverandi aðferðir, skimun og rakning, gefist vel hingað til.

„Þórólfur hefur leitt okkur í gegnum öldubrotið með farsælum hætti.

Það eru þó blikur á lofti og vert að athuga hvort þessi aðferð sé að bregðast okkur núna. Það lýsir sér með því hversu margir greinast utan sóttkvíar og hversu hátt hlutfall jákvæðra sýna er á degi hverjum,“ segir Ragnar í færslu sinni.

Hugsi dæmið ekki til enda

Greint var frá því í gær að Þórólfur og Már tækju ekki undir hugmyndir Ragnars. „Ég held að Ragnar sé ekki á réttri leið með þessar vanga­veltur, því miður. Hann hugsar dæmið ekki alveg til enda,“ sagði Þór­ólfur í viðtali í Bítinu á bylgjunni í gærmorgun og bætti við að hætt yrði að taka þessi sýni, myndi enginn vita hver væri smitaður og hver ekki.

Afleiðingarnar yrðu þær að ekki væri lengur hægt að beita sóttkví og einangrun, sagði Þórólfur jafnframt.

Óbreytt ástand

Í nýjustu færslu sinni segir Ragnar að þegar læknar standa frammi fyrir því að meðferð sem áður reyndist vel missir mátt sinn, standi hann frammi fyrir þremur kostum; „Auka skammtinn, breyta engu eða skipta um meðferð.“

Til að auka skammtinn hefði þurft að skima rúmlega 23 þúsund manns á sunnudaginn síðastliðinn þegar tæplega þúsund manns greindust með Covid-19.

„Að breyta engu skilar óbreyttu ástandi – Faraldur í línulegum vexti,“ segir Ragnar jafnframt.

Nýjar nálganir en ekki hætta skima

„Skimanir kosta um 100 milljónir á dag auk kostnað við rakningu. Hvert sýni kostar skv. kostnaðargreiningu Landspítala um 11 þúsund krónur.

Vangavelta mín um að endurhugsa nálgun, skima með sértækum hætti td. áhættuhópa er líka aðferð með óvissa útkomu.

En mögulegt gæti verið að færa fjármuni milli málaflokka og styrkja innviði heilbrigðiskerfisins betur. Til að takast á við það sem er í vændum,“ heldur Ragnar áfram í færslu sinni og bætir við að innlegg hans á sunnudaginn síðastliðinn hafi gengið út á það. „Ekki að hætta skimun eða láta faraldurinn geysa frjálst – það er fjarri lagi.“

Máli sínu til stuðnings bendir Ragnar á að yfirvöld í öðrum löndum séu að taka upp nýjar nálganir.