„Þetta voru bréf sem voru ópóstlögð og komu bara inn um bréfalúguna með dagsettum aftökum á mér,“ segir Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, í viðtali í nýjasta tölublaði Stundarinnar.
Í viðtalinu ræðir Ragnar Þór meðal annars þá ákvörðun sína í vikunni að draga framboð sitt til forseta ASÍ til baka. Ragnar segir að mikið hafi gengið á að undanförnu; hann hafi verið sakaður um ofbeldi, valdasýki og valdagræðgi og markmið hans með því að verða forseti ASÍ væri að segja upp öllu starfsfólki sambandsins.
Ragnar segir einnig að fyrir síðustu kjarasamninga hafi honum og fleirum innan verkalýðshreyfingarinnar farið að berast hótanir.
„Okkur var stillt þannig upp að við værum í raun bara að eyðileggja hagkerfið, stórskaða hagkerfið. Skaða samfélagið með einhverjum fáránlegum kröfum sem gætu aldrei gert neitt annað en að setja fólk í verri stöðu og svo framvegis. Þetta var rosalega hörð orðræða. Og það gerist í kringum það að við förum að fá handskrifuð bréf og skrítnar hótanir. Maður hafði alveg fengið pósta og símtöl og svona. Síðan þegar við förum að fá þetta í eigin persónu, þetta voru bréf sem voru ópóstlögð og komu bara inn um bréfalúguna með dagsettum aftökum á mér,“ segir Ragnar við Stundina en í bréfi sem hann fékk voru honum gefnir tveir mánuðir þar til átti að taka hann af lífi.
Hann segir að hótanir sem þessar megi vissulega tengja að stórum hluta við orðræðuna sem er oft óvægin. Hann segist ekki geta sætt sig við það að vera kallaður ofbeldismaður. „Ég er ekki ofbeldismaður. Og ég get ekki sætt mig við það að vera vændur um það að ætla að reka starfsfólk.“