„Þetta voru bréf sem voru ó­póst­lögð og komu bara inn um bréfa­lúguna með dag­settum af­tökum á mér,“ segir Ragnar Þór Ingólfs­son, for­maður VR, í við­tali í nýjasta tölu­blaði Stundarinnar.

Í við­talinu ræðir Ragnar Þór meðal annars þá á­kvörðun sína í vikunni að draga fram­boð sitt til for­seta ASÍ til baka. Ragnar segir að mikið hafi gengið á að undan­förnu; hann hafi verið sakaður um of­beldi, valda­sýki og valda­græðgi og mark­mið hans með því að verða for­seti ASÍ væri að segja upp öllu starfs­fólki sam­bandsins.

Ragnar segir einnig að fyrir síðustu kjara­samninga hafi honum og fleirum innan verka­lýðs­hreyfingarinnar farið að berast hótanir.

„Okkur var stillt þannig upp að við værum í raun bara að eyði­leggja hag­kerfið, stór­skaða hag­kerfið. Skaða sam­fé­lagið með ein­hverjum fá­rán­legum kröfum sem gætu aldrei gert neitt annað en að setja fólk í verri stöðu og svo fram­vegis. Þetta var rosa­lega hörð orð­ræða. Og það gerist í kringum það að við förum að fá hand­skrifuð bréf og skrítnar hótanir. Maður hafði alveg fengið pósta og sím­töl og svona. Síðan þegar við förum að fá þetta í eigin per­sónu, þetta voru bréf sem voru ó­póst­lögð og komu bara inn um bréfa­lúguna með dag­settum af­tökum á mér,“ segir Ragnar við Stundina en í bréfi sem hann fékk voru honum gefnir tveir mánuðir þar til átti að taka hann af lífi.

Hann segir að hótanir sem þessar megi vissu­lega tengja að stórum hluta við orð­ræðuna sem er oft ó­vægin. Hann segist ekki geta sætt sig við það að vera kallaður of­beldis­maður. „Ég er ekki of­beldis­maður. Og ég get ekki sætt mig við það að vera vændur um það að ætla að reka starfs­fólk.“