Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, segir sláandi að lesa um mál Sólveigar Önnu Jónsdóttur, formanns Eflingar, um að fyrrverandi formaður og varaformaður Eflingar hafi lesið og haft óheftan aðgang að tölvupósti hennar um tíma. Hann segist vona að fólk geri sér grein fyrir alvarleika málsins.

Sólveig Anna greindi frá málinu á Facebook-síðu sinni í gærkvöldi. Hún segir Agnieszku Ewu Wiolkowsku og Ólöfu Helgu Adolfsdóttur hafa þann 12. janúar síðastliðinn látið tengja tölvupósthólf hennar, sem hún hafði notað í störfum sínum sem formaður Eflingar, allt frá því að hún tók fyrst við því embætti seint í apríl 2018 allt þar til hún sagði af sér störfum sem formaður haustið 2021 við tölvupósthólf Agnieszku Ewu, starfandi formann félagsins.

Saka hvora aðra um njósnir

Agnieszka Ewa sakar svo Sólveigu Önnu um að brjótast í læsta skúffu á skrifstofu hennar þegar hún var erlendis vegna dauðsfalls í fjölskyldunni í samtali við Vísi í morgun. „Þetta er ákveðin hræsni að hún skuli saka mig um njósnir en viðurkennir svo sjálf að hafa brotist inn á skrifstofuna mína á meðan ég var ekki á landinu, og brotist í skúffu, sem ég var ein með lykil að, þar sem mínir persónulegu munir eru,“ segir Agnieszka Ewa við Vísi.

Glæpsamlegt segir Ragnar

„Að vita til þess að óheftur aðgangur hafi verið veittur, án athugasemda, án nokkurs eftirlits og án vitneskju Sólveigar Önnu og Viðars, og í þann tíma sem um ræðir, sem náði framyfir endurkjör hennar og þess dags sem hún tók við að nýju sem formaður Eflingar er hrikalegt.

Og án nokkurs vafa glæpsamlegt,“ segir Ragnar Þór meðal annars um málið á Facebook-síðu sinni.

Ragnar Þór segir reglur og lög um meðferð slíkra gagna alveg skýrar. „Siðferðislega spurningin er svo önnur því ekki hefði mér dottið í hug að kalla eftir því að fá aðgang að tölvupóstum fyrrum formanna VR, bara af því bara, finna mögulega einhvern skít, koma höggi á viðkomandi eða til þess að finna eitthvað neikvætt um mig sjálfan. Þó svo að ég hafi átt í deilum við nokkra þeirra í gegnum tíðina þá eru þetta einfaldlega mörk sem við stígum ekki yfir.“

Þannig skapast traustið

Að sögn Ragnars Þórs vill hann fullvissa alla þá sem hafa sent honum tölvupósta eða gögn á netfang sitt hjá VR að ferlar varðandi meðferð á tölvupóstum starfsmanna séu með þeim hætti að óvinnandi vegur væri fyrir nýjan formann eða stjórnendur að komast í gögnum með þeim hætti sem gerðist í máli Sólveigar Önnu, nema með aðkomu dómstóla.

Hann segir hafa haldið trúnað við alla þá sem hafa sent honum tölvupóst og að hann muni ávalt halda þeim trúnaði. „Þannig skapast traustið.“