Ragnar Þór Ingólfsson formaður VR ætlar að bjóða sig fram til áframhaldandi formennsku í félaginu en kosningar fara fram í mars á þessu ári. Frá þessu greinir Ragnar í tilkynningu á Facebook-síðu sinni í dag.
„Það hefur farið mikil orka í innbyrðis átök á vettvangi ASÍ og er hreyfingin þverklofin hvað það varðar. Ég trúi því að hreyfingunni beri gæfa til að vinna sig í gegnum þessa stöðu á komandi framhaldsþingi ASÍ og mun ég leggja mitt af mörkum svo það megi verða. Stjórnarstarfið í VR hefur gengið afskaplega vel. Að vinna í slíku umhverfi þar sem þú ert alltaf með vindinn í bakið eru ekki bara forréttindi heldur gerir það okkur kleift að vinna mun fleiri hagsmunamálum okkar brautargengi. Slíkt gerist ekki af sjálfu sér. Við erum liðsheild og allir leggja sitt af mörkum í að vinna sem best fyrir félagsfólkið okkar. Rekstur og staða félagsins hefur aldrei verið sterkari og starfsandi vart verið betri í þau 14 ár sem ég hef setið í stjórn og sem formaður félagsins,“ segir Ragnar í færslunni þar sem hann fer yfir þau mál og verkefni sem eru á döfinni og sem hann vill leggja áherslu á.
Hægt er að lesa tilkynninguna hér að neðan.